Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:09:12 (101)

1996-10-08 15:09:12# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:09]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að það er misskilningur af hálfu hv. þm. að það sé ákveðið í fjárlagafrv. að launahækkun verði ekki nema 3,5%. Eins og mjög glögglega kemur fram í þjóðhagsáætlun Þjóðhagsstofnunar er það tilbúin tala. Hún er fundin út með þeim einfalda hætti að aflað er upplýsinga hjá alþjóðastofnunum og erlendum ríkisstjórnum um það hvernig kaupgjald og verðlag þróast í þeim löndum. Síðan er sett niður sú tala sem gerir viðskiptalega og samkeppnislega stöðu Íslands jafna á næsta ári og hún er í ár. Það er talan 3,5%. Þetta er ekki flóknara en það. Í þessari tölu felst engin yfirlýsing um það hvað eigi að greiða í laun á næsta ári umfram það sem gerist á yfirstandandi ári.

Vegna þess að hv. þm. sagði að ég hefði ekki svarað spurningunni um skuldastöðu heimilanna eða um heilbrigðismálin og það sem varðaði almenning þá er það rangt. Ég fjallaði í ræðu minni fyrr í dag mjög ítarlega um þessi mál. Ég hef auðvitað áhyggjur af því eins og hv. þm. --- ég heyrði að hann sagði að við værum sammála um margt --- hversu miklar skuldir hafa hlaðist upp hjá heimilunum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. En um leið og það er sagt þá megum við ekki heldur gleyma hinu að í lífeyrissjóðunum eru að hlaðast upp miklar eignir sem þetta sama fólk á. Yfir því ber að gleðjast.

Varðandi það hvort vanti 1 milljarð í heilbrigðismálin þá efast ég um að það sé rétt. Ég tel að ef við lítum sameiginlega á félagsmálin og heilbrigðismálin hafi ekki verið sá niðurskurður sem menn tala oft um í þessum málaflokkum, sem betur fer.

Loks varðandi aflahorfur þá byggir Þjóðhagsstofnun ef ég man rétt á svipuðum aflabrögðum á næsta ári og í ár.