Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:41:29 (107)

1996-10-08 15:41:29# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að reyna að nýta tímann. Í fyrsta lagi vegna húsaleigubótakerfisins teljum við að komið sé nokkuð gott samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar og Sambands sveitarfélaga um það að fresta því máli um eitt ár. Það þarf að endurskoða lögin í haust samkvæmt gildandi lögum en eftir ár munu sveitarfélögin taka yfir húsaleigubótakerfið en ríkið taka yfir verkefni á móti. Þetta var m.a. rætt 27. sept. á fundi formanns og framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga, fjmrh. og félmrh.

Í öðru lagi var minnst á kaupmátt, einkaneyslu og eyðslu heimilanna. Hér er einungis um það að ræða sem má sjá í opinberum gögnum. Kaupmáttur hefur aukist um 8--9% á yfirstandandi ári og síðasta ári samtals. Sem dæmi má nefna að tvö ár, árin 1989 og 1990 þegar flokkur hv. þm. var við stjórn, held ég að kaupmátturinn hafi rýrnað um 12% svo ég hafi samanburð á milli ára. Einkaneyslan hefur hins vegar aukist um 12% á sama tíma og kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkaði um 8--9 og það er það sem er áhyggjuefnið.

Spurningunni um fjárhagslega aðstoð og rekstraraðstöðuna get ég því miður ekki svarað en skal reyna að afla upplýsinga. Þetta er auðvitað nýtt fyrirkomulag, tók gildi á miðju ári.

Varðandi lífeyristryggingar og laun skal tekið fram að launatalan er alger áætlunartala. Þetta er mál sem er að þróast og við erum að skoða og það verður líklega ekki fyrr en í desember sem við getum tekið endanlega ákvörðun um það sem stendur í fjárlagafrv. Það er rangt að tala um flatan niðurskurð einfaldlega vegna þess að sífellt er verið að forgangsraða. Á Landspítalanum er t.d. núna verið að bæta við glasafrjóvgun. Það er verið að bæta við barnaskurðlækningum svo ég nefni dæmi um mál þar sem menn eru að forgangsraða, taka inn ný verkefni. Svo tala menn alltaf um flatan niðurskurð.

Loks, virðulegi forseti, um það hvenær almenningur, láglaunafólkið megi búast við launahækkunum. Búast má við launahækkunum þegar ríkisstjórn og stjórnmálamenn hafa skapað skilyrði fyrir atvinnulífið með þeim hætti að það geti skilað þeim launum sem við sækjumst eftir. Að því miðast öll starfsemi ríkisstjórnarinnar.