Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 16:27:56 (113)

1996-10-08 16:27:56# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:27]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir viðbrögð hans. Hann sagði að ekki væri stefnt að því að endurinnritunargjöldin næmu hærri upphæð en 1.500 kr. á nemanda en það hlýtur þá að vera eitthvað rangt skráð í greinargerð með fjárlagafrv. því að efst á bls. 293 er þessi setning: ,,Með hliðsjón af því að endurinnritun er jafnan meiri í áfangaskólum en bekkjarskólum er áætlun miðuð við 2.500 kr. á nemanda í áfangaskólum en 1.000 í bekkjarskólum.`` Ég hef kannski eitthvað misskilið þessa setningu.

Um upplýsingar hans um breytingar á stöðu Hússtjórnarskólans á Hallormsstað vil ég aðeins segja að hann telur að skólar með færri nemendur en 80 séu betur komnir sem hluti af stærri heild. Það getur verið álitamál og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort með því sé hann að líta til faglegra þátta eða fjárhagslegra. Ég er ekki sannfærð um að það hafi sparnað í för með sér, t.d. með því að leggja Hússtjórnarskólann á Hallormsstað undir Egilsstaðaskóla. Við verðum líka að taka með í reikninginn að slík sameining hefur í för með sér ferðakostnað og fleira sem vegur kannski býsna þungt á móti þeim sparnaði sem hugsanlega fæst í stjórnunarkostnaði. Ég hef aðrar upplýsingar en hæstv. ráðherra um afstöðu Egilsstaðaskóla en ég skal ekkert fullyrða um hvorar eru réttar.