Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 16:33:22 (116)

1996-10-08 16:33:22# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að hv. þm. skyldi lýsa yfir stuðningi við meginmarkmið frv. að reka ríkissjóð með einhverjum tekjuafgangi eins og nú stendur á í okkar þjóðfélagi.

Í öðru lagi er ég ósammála hv. þm. þegar hann ræðir um Flugstöð Leifs Eiríkssonar --- að hún sé þungur baggi. Ég held að allir sem þekkja þetta mál og ég hélt nú satt að segja að hv. þm. sem er fyrrv. formaður Ferðamálaráðs hefði hugleitt það öðruvísi en virtist koma fram í hans orðum. Það er auðvitað nauðsynlegt að greiða þessa byggingu því hún hefur í sjálfu sér fært okkur tekjur sem hefðu ella ekki komið. En við höfum hins vegar svikist um það árum og áratugum saman að greiða þessa byggingu, tekið fjármunina sem hafa orðið til og sett þá í annað, þar á meðal í flugvelli og ýmsa starfsemi annars staðar á landinu. Nú er svo komið að við getum ekki lengur horft fram hjá þessu. Þetta þarf að borga og þess vegna er ekkert óeðlilegt að á því sé tekið enda heyrði ég að hv. þm. skildi það mætavel. Það var aðallega gjörðin að byggja stöðina á sínum tíma sem virtist fara fyrir brjóstið á henni.

Það gefst ekki tækifæri til þess nú að ræða um atvinnuleysi og atvinnuþátttöku kvenna. Það hefði verið gaman af því að gera það við betra tækifæri. Ég vil einungis nota þennan tíma andsvarsins til að segja frá því að nefnd sú sem starfar að fæðingarorlofsmálum hefur ekki enn lokið störfum sínum. Dögg Pálsdóttir, formaður nefndarinnar, hefur sagt mér að hún vinni nú að upplýsingasöfnun. Ég veit að eitt af því sem nefndin hefur sérstaklega rætt er einmitt feðraorlof en á meðan lögum hefur ekki verið breytt þá er ekki ástæða til að taka kostnað við slíkt upp í fjárlagafrumvarp.