Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 16:35:44 (117)

1996-10-08 16:35:44# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:35]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir viðbrögð hans við ræðu minni. Ég held að hann hafi eitthvað misskilið mig í sambandi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég var út af fyrir sig ekki að gagnrýna að húsið hefði verið byggt heldur var ég að ýja að því áliti mínu, sem margsinnis kom fram á sínum tíma, að ég taldi mjög mikla sóun í sambandi við þá byggingu. Það var ekki gætt fyllsta hagræðis og sparnaðar í þeim efnum. Þessi bygging hefur fært okkur tekjur, sagði hæstv. ráðherra. Það hefði að sjálfsögðu hvaða flugstöðvarbygging sem var gert þó hún hefði verið ódýrari og ég sé ekki að þetta komi að miklu leyti við mínu starfi sem fyrrv. form. Ferðamálaráðs því ekki koma ferðamenn hingað til Íslands til þess eins að horfa á þessa fallegu flugstöð.

Ég varð fyrir vonbrigðum með að fá ekki nánari upplýsingar um hvernig staðan er varðandi endurskoðun á lögum um fæðingarorlof en ég skil vel að ekki skuli vera hægt að gera ráð fyrir auknum framlögum til þess máls fyrr en búið er að ganga frá nefndaráliti og gera tillögur um hvernig þessu verði varið. Ég hefði auðvitað vonast til að þau mál hefði borið á góma í ríkisstjórninni þannig að við fengjum einhverjar upplýsingar um það núna.