Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 17:15:02 (121)

1996-10-08 17:15:02# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. kom sér hjá því að tala um að framlög til átaks gegn ávana- og fíkniefnum eru óbreytt þó boðaðar séu úrbætur í því efni þannig að þær eru marklausar miðað við fjárlögin. Hann kom sér líka hjá því að tala um aukin þjónustugjöld í menntamálum og hvernig er verið að rífa niður menntakerfið. Og varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra þá stend ég við það að verið sé að eyðileggja hann vegna þess að forsenda fyrir því að fjármagn var tekið úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til reksturs var að hann hefði óbreytt framlag af erfðafjárskatti. Og varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn þá var heldur ekki rætt um hann en þar virðist sem verið sé að þrengja að kjörum atvinnulausra. Og það þarf auðvitað nánari skýringa við sem hv. þm. nefnir þegar hann vill halda því fram að ekki sé verið að stefna sjúkrahúsrekstrinum í uppnám aftur á næsta ári, vegna þess það eru boðuð óbreytt framlög til stóru sjúkrahúsanna frá fjárlögum þessa árs þó að að þeir hafi fengið viðbótarfjármagn til þess að bjarga sér á þessu ári. En ég fullyrði að það nægir hvergi til þess að rekstri stóru sjúkrahúsanna sé ekki stefnt í uppnám.