Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 18:33:41 (126)

1996-10-08 18:33:41# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:33]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Mín svör eru mjög stutt. Það er alveg óþarfi að hafa mörg orð um kosningaloforðin frá því fyrir kosningarnar 1995, þar sem allir lýstu því yfir að það væri forgangsmál að draga úr þessum jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins. Það var snemma árs árið 1995. Ég endurtek: Hæstv. fjmrh., hæstv. ríkisstjórn hefur haft nægan tíma, aðstöðuna og valdið til þess að gera það. Þeir hafa ekki gert það. Þeir segja enn: Við erum að vinna að því. Í aðdraganda kjarasamninga hefðu niðurstöður þeirrar vinnu átt að liggja fyrir núna að mínu mati.

Hæstv. fjmrh. rifjaði upp sögulegar staðreyndir frá 1988 og 1989. Og hverju lýsa þessar staðreyndir? Þær lýsa því að þau umskipti sem verða í hagkerfinu í heild eru algerlega ráðandi fyrir örlög fjárlagafrumvarpa fjármálaráðherra, hver sem hann er hverju sinni. Menn geta lagt af stað með góð áform, en þegar umskiptin verða eins og þau urðu frá hausti 1987 fram á árið 1988, sem menn voru mjög seinir að átta sig á, þá enduðu þau í þessum tölum. Það sem ég er að segja er það að umskiptin sem við nú erum í, frá samdrætti til góðæris, eru gríðarlega mikil og það getur þess vegna einmitt í ljósi þessarar reynslu farið eins, hæstv. fjmrh., nema menn læri af reynslunni.