Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 18:35:20 (127)

1996-10-08 18:35:20# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að undirbúningur breytingar á tekjuskattskerfinu er í mjög eðlilegum farvegi og að því máli koma aðilar vinnumarkaðarins. Alveg eins og hv. þm. nefndi er mjög mikilvægt að þeir séu með í þessari vinnu og ég efast ekki um eitt andartak að jafnaðarmenn munu með okkur stuðla að því að vel fari, bæði í þessu tiltekna máli og eins þegar kemur að því að kjarasamningar verði gerðir rétt eins og sjálfstæðismenn gerðu þegar þeir voru utan stjórnar 1990 og studdu þjóðarsáttina. Það er mikilvægt að stuðningur og skilningur sé út fyrir stjórnarsamstarf á hverjum tíma. En ég minni á að að þessu er unnið og það er þegar búið að taka fyrstu skrefin, þau voru tekin í ár og reyndar í fyrra þegar lækkaðir voru tekjuskattar vegna iðgjalda til trygginganna.

En varðandi það sem hv. þm. sagði síðan um fyrri árin, þá er það allt saman satt og rétt, við deilum ekki um það. Og ég tek undir það með honum, og ég er sammála honum í því eins og kannski svo fjölmörgu öðru sem hann hafði að segja í dag, að það skiptir máli að læra af reynslunni og það á ég kannski betur með að gera en flestir aðrir vegna þess að ég hef haft langan tíma til þess að átta mig á því um hvað þessi fjármál snúast.