Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 18:37:53 (129)

1996-10-08 18:37:53# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta voru um margt mjög fróðleg skoðanaskipti sem hér fóru fram um grundvallarforsendur fjárlagafrv. Ég held að það sé að mörgu leyti áhugavert og þarft að menn ræði við 1. umr. málsins um þetta á þeim forsendum en það bíði síðari umræðna að fjalla kannski um einstök atriði í smáatriðum. Hér er verið að ræða grundvöll hinnar opinberu efnahagsstefnu á komandi ári og þetta mál er auðvitað nátengt afkomu og horfum í þjóðarbúskapnum, stefnu í efnahags- og peningamálum o.s.frv. Ég ætla að ræða lítillega um tekjuhlið frv. og gera það út frá þeim forsendum sem upp eru lagðar í sjálfu frv. en vitna minna í forsætisráðherra Svíþjóðar sem af einhverjum ástæðum hefur orðið einn aðalræðumaðurinn hér í dag. Í hann er vitnað fram og til baka bæði af hæstv. fjmrh. sem gerir þá sænska sósíaldemókrata að spámönnum sínum í þessum efnum og að sjálfsögðu stóð ekki á formanni Alþfl. að taka undir þetta og vitna hér dögum oftar í Göran Persson.

Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni en ekki Göran Persson, að þegar farið er yfir tekjuforsendur fjárlagafrv. og þeirrar stefnu sem þar birtist, þá veldur það auðvitað vonbrigðum að sjá að hér eru ekki tímamót á ferðinni í neinum skilningi þess orðs öfugt við það sem reynt hefur verið að halda fram. Því hefur verið slegið upp sem miklum tíðindum og miklum tímamótum að nú væri lagt fram frv. sem gerði ráð fyrir tekjuafgangi ríkissjóðs í fyrsta sinn um langa hríð og þá er eðlilegt að menn spyrji: Í hverju felast þá þau miklu tímamót? Hvar koma þau fram í efni frv.? Hvar koma þau fram í tekjuforsendum? Hvar koma þau fram í þeirri skattastefnu sem frv. byggir á?

Staðreyndin er sú að þar er ekki um neinar breytingar að ræða af einu eða neinu tagi. Frv. boðar ekki neinar breytingar sem tíðindum sæta hvað varðar tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári og skýringin á tekjuafganginum er ósköp einfaldlega sú að veltuaukning, eyðsluaukning í þjóðfélaginu á þessu ári er framreiknuð sem forsenda tekna á næsta ári, án fyrirvara, og útkoman verður sú að á pappírnum kemur út afgangur upp á 1 milljarð kr. Á pappírnum því það er sýnd veiði en ekki gefin.

Auðvitað vekur margt athygli líka um það hvernig þessar tekjur dreifast og hverjir eiga þá að bera þær byrðar. Það er t.d. mjög merkilegt að fyrirtækin, þrátt fyrir þá afkomu sem þau hafa verið að sýna á síðustu missirum, skuli samkvæmt forsendum frv. eiga að leggja minna af mörkum, heldur minna en á síðasta ári eða í besta falli svipaða upphæð, að þau skuli á þessu mikla veltuári, árinu 1995, ætla að reynast samkvæmt áætlun skila heldur minna en fjárlög ársins sjálfs gera ráð fyrir. Þar skakkar líklega hundruðum milljóna sem nemur því hvað tekjuskattur fyrirtækja eða lögaðila verður lægri á árinu heldur en fjárlög gera ráð fyrir á sama tíma og tekjuskattur einstaklinga vex um 3 milljarða og er stærstur hlutinn af tekjuauka upp á 5 milljarða sem þarna eru á ferðinni.

Ég óttast það því miður, herra forseti, að þessar forsendur séu ekki eins traustar og hæstv. fjmrh. og margir fleiri vilja vera láta. Ef það er til að mynda skoðað hvernig stærstu tekjupóstarnir eru framreiknaðir eða lagðir til grundvallar áætlaðri álagningu á árinu 1997 kemur í ljós að gert er ráð fyrir því að virðisaukaskattur skili 3 milljörðum meira á árinu 1997 en hann gerir á þessu ári eða aukist um 6,9% sem er talsvert umfram áætlaðan hagvöxt eða vöxt í efnahagslífinu almennt, langt umfram áætlaðan vöxt landsframleiðslu eða þjóðartekna á næsta ári. Og hver ætti þá að verða skýringin á því til þess að þetta standist? Hún getur þá ekki orðið önnur en sú, að fjmrn. reikni með því að eyðsla eða velta muni enn aukast, virðisaukaskattsskyld velta í þjóðfélaginu muni enn aukast á næsta ári og það verulega og það umfram vöxt efnahagslífsins. Ég vara við þessum forsendum. (Gripið fram í.) Ég óska þá eftir því að hæstv. fjmrh. útskýri hvernig hann ætlar að ná þessum viðbótartekjum út úr virðisaukaskattinum á næsta ári. Endurgreiðslur eru að vísu eitthvað að lækka vegna breytinga sem gerðar voru á síðasta ári og klúðruðust reyndar að hluta til eins og t.d. varðandi lækkun á endurgreiðslu á viðhaldi íbúðarhúsnæðis, en eftir stendur að ég held að það sé óvarlegt að gefa sér t.d. að einkaneyslan verði sú sama á næsta ári og sú tímabundna veltuaukning á þessum mánuðum sem nú hafa verið að líða gefa tilefni til, en það er það sem fjárlagafrv. í raun og veru byggir á. Ég leyfi mér að efast um það að efnahagur heimilanna í landinu standi undir því til langframa að þessi aukna neysla haldist. Ég held að það séu allt aðrar aðstæður en oft áður hafa verið og kemur þar auðvitað fyrst til að skuldastaða heimilanna sé allt önnur og miklu verri en hún hefur nokkurn tíma áður verið þegar við höfum verið að ræða um sambærilega hluti.

Það mátti öllum vera ljóst að þegar loksins eitthvað rofaði til í okkar efnahagsbúskap og menn fengju a.m.k. vonir um að heldur bjartara væri fram undan þá mundi tiltekin eyðsluhrina ganga yfir í þjóðfélaginu. Það liggur algerlega í hlutarins eðli. Þar var um að ræða uppsafnaða þörf fjárfestinga og endurnýjunar af ýmsu tagi, t.d. á heimilisbifreiðum, sem menn hafa ekki getað ráðist í mörg undanfarin ár. Og svo verða menn gapandi hissa á að bílainnflutningur taki eitthvert stökk upp á við við þessar aðstæður. Það lá í hlutarins eðli að mínu mati að slíkt mundi gerast. Reyndar þarf talsvert til að halda í horfinu hvað varðar t.d. meðalaldur á þeim tækjum. Ég er þess vegna ekki jafnsannfærður um það og höfundar fjárlagafrv. að tekjuliðir eins og virðisaukaskattur, bifreiðagjöld og jafnvel tekjuskattur einstaklinga muni gefa þá aukningu á næsta ári sem hér er reiknað með og eru forsendur þess að á pappírnum er skilað afgangi upp á 1 milljarð króna. Því miður liggur mér við að segja, því það væri betur að svo væri.

[18:45]

Það er líka ástæða til að minna á að þessi veltuaukning birtist í einum mjög neikvæðum þætti sem er viðskiptahalli. Hún er að mestu leyti tekin að láni erlendis og hún er líka tekin að láni frá heimilunum vegna þess að skuldaaukning heimilanna heldur áfram á þessum mánuðum samkvæmt tölum úr bankakerfinu og nemur reyndar rúmlega vextinum á viðskiptahallanum eða versnandi viðskiptajöfnuði, þ.e. þeim hluta sem skýra má með aukinni neyslu heimilanna þegar frá eru dregnar fjárfestingar. Hvort tveggja eru þetta mjög neikvæð teikn sem ástæða er til að taka fullt mark á. Þau eru samt framreiknuð í forsendum fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Með öðrum orðum, hæstv. ríkisstjórn byggir sína efnahagsstefnu á því að áframhaldandi viðskiptahalli verði og þá væntanlega líka skuldasöfnun heimilanna til að fjármagna hann af þeirra hlut.

Það er líka athyglisvert hvernig tekjuskatturinn dreifist á einstaklingana og lögaðilana eins og ég kom að áðan. Samkvæmt áætlun fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga skili tæpum 25 milljörðum kr., 24,9 í stað 21,8, sem fjárlög gera ráð fyrir eða rúmlega 3 milljörðum að auki. Tekjuskattur fyrirtækja eða lögaðila skili hins vegar einungis 4,4 milljörðum í staðinn fyrir 4,6 eða heldur lægri tölu en fjárlög gera ráð fyrir. Hvort tveggja er tínt til sem skýring í forsendum fjárlagafrv. eða greinargerð að fyrirtækin hafi nýtt sér uppsöfnuð eða geymd töp og hafi nýtt sér þær heimildir til flýtifyrninga sem eru í skattalögum. Og maður hlýtur að spyrja sig að því: Er samt sem áður ætlun hæstv. ríkisstjórnar að hafa þau göt opin áfram eins og á þessu ári þannig að við horfum upp á að fyrirtækin jafnvel lækki framlag sitt til ríkissjóðs, greiði minni tekjuskatt af hagnaði sínum í góðærinu á sama tíma og skattbyrðin þyngist til mikilla muna hjá einstaklingum?

Það dapurlegasta, herra forseti, að mínu mati er þó það sem var gert að nokkru umtalsefni áðan og er spurningin um umbætur í skattkerfinu sem snúa að svonefndum jaðarsköttum eða jaðaráhrifum. Það er eitt af þessum tískumálum sem mikið er búið að tala um en lítið hefur verið gert í. Það er alveg rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að þetta stóð upp úr hverjum manni fyrir síðustu alþingiskosningar að grípa yrði til einhverra ráðstafana, þetta gengi ekki svona o.s.frv. En hæstv. fjmrh. leggur fram fjárlagafrv. sem gerir ekki ráð fyrir neinum úrbótum í þessu efnum á næsta ári. Það verður a.m.k. ekki séð að það komi fram í tekjuáhrifum ríkissjóðs að stemma eigi stigu við jaðaráhrifum sem að sjálfsögðu hlyti með einum eða öðrum hætti að koma fram t.d. í meiri bótagreiðslum vegna þess að dregið væri úr jaðaráhrifum. Nú ættu að vera aðstæður til þess ef marka má góðærið og batann, sem hæstv. ríkisstjórn í öðru orðinu gerir mikið úr, að taka þá skref í þessum efnum. Staðreyndin er sú að brýnna verður með hverju árinu sem líður að taka á vandamálinu vegna þess að það er að koma inn enn ein ný tekjutengingin af mjög miklum þunga einmitt á þessum árum. Hún kemur til með að gera stöðu þessa hóps sem á í hlut enn verri en nokkru sinni fyrr en það eru stórhertar tekjutengdar endurgreiðslur námslána. Fyrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vann það afrek að gera breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna 1992 þar sem settar voru inn alveg fáheyrðar tekjutengdar endurgreiðslukröfur ofan á öll jaðaráhrifin sem fyrir voru. Það er hollt fyrir formann Alþfl. að minnast þess, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að hann sat í þeirri ríkisstjórn. (JBH: Ég man það vel.) Já, og man þetta vel. Og hvernig kemur þetta saman við allt talið um að jaðaráhrifin séu að verða svo brjálæðisleg að á þeim verði að taka? Menn hefðu betur séð það fyrir 1992. Við því var varað þá að eitt af því sem gerði endurgreiðslukröfurnar fráleitar væru viðbótarjaðaráhrifin sem þær kæmu til með að hafa ofan á tekjutengdar barnabætur, vaxtabætur eða húsaleigubætur o.s.frv. (JBH: Lofað var að endurskoða í ljósi reynslunnar innan tveggja ára.) Lofað var að endurskoða í ljósi reynslunnar innan tveggja ára. Það er réttlætingin sem hér er fram færð.

Við skulum aðeins fara yfir það hvernig þetta kemur út fyrir það unga fólk sem nú er að ljúka námi og er að hefja endurgreiðslur. Fyrstu hóparnir eru að hefja endurgreiðslur á grundvelli kerfisins frá 1992 og gera það í vaxandi mæli á komandi missirum. Það liggur í hlutarins eðli, ekki satt? Síðan er liðin nokkurn veginn ein háskólanámstíð. Tekjutengdi hlutinn nemur 5% af --- hverju? Af brúttótekjum og hækkar eftir fimm ár í 7%. Og hvað þýða 5% eða 7% af brúttótekjum? Það þýðir í fyrra tilvikinu 9--10% af ráðstöfunartekjum og í seinna tilvikinu 11--12% þannig að sá hópur með þessari viðbótartekjutengdu byrði er settur í þá stöðu að eiga að taka upp undir eins og hálfs mánaðar ráðstöfunartekjur í greiðslu bara á þessum þætti. Þannig getur það komið út. Þetta er hrein geðveiki. Fyrir geta auðveldlega verið 60--65% jaðaráhrif hjá þessum hópum áður en kemur að námsláninu. Ef við segjum að í hlut eigi þriggja barna fjölskylda, tveggja til þriggja barna fjölskylda sem liggur á þessu tekjubili þar sem jaðaráhrif gagnvart tekjutengdum barnabótaauka verða virk. Um er að ræða fjölskyldu sem hefur fest kaup á húsnæði og er með fullar vaxtabætur sem skerðast um 6% af tekjum og síðan barnabætur vegna fyrsta barns um 6%, annars barns 5%, þriðja barns 4%. Og leggi menn þetta saman og bæti svo við þessum brjálæðislegu endurgreiðslum námslánanna fá þeir út að slíkar fjölskyldur halda eftir í besta falli fimmtu hverri krónu á tekjubilinu u.þ.b. 120--200 þús. á mánuði í fjölskyldutekjur. Hvers konar staða er það fyrir fólk að reyna að vinna sig út úr erfiðleikunum?

Staðreyndin er sú að um þetta hafa menn talað og talað en ekkert gert. Ég kalla það ekki ráðstafanir sem voru gerðar í fyrra þó að prósenturnar gagnvart barnabótaaukanum væru lækkaðar úr 7% í 6% og 6% í 5%. Þau áhrif eru nánast hverfandi. Á þessu eru til ósköp einfaldar tæknilegar lausnir og þarf ekkert að þvæla þessu máli í endurskoðunarnefndum ár eftir ár. Það er yfirklór, hæstv. fjmrh., vegna þess að það tæki færustu embættismenn ráðherrans ekki nema tvo tíma að semja snyrtilegar tillögur um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem gerðu það að verkum að auðvelt yrði að útfæra tæknilega einfaldar ráðstafanir til að setja þak á þennan jaðarskatt. Fyrir þinginu liggur frv. flutt af mér og öðrum þingmönnum Alþb. og óháðra um einmitt slíka aðgerð --- að sett verði inn í tekjuskattslögin ákvæði um þak á jaðarskatt eða jaðaráhrif. Þar eru margar leiðir færar og lengi má velta fyrir sér hver er besta tæknilega útfærslan í slíkum efnum. Ég nenni ekki í þá þrætu. Hún er ástæðulaus vegna þess að ekki er ástæða til að ætla að það vefjist fyrir mönnum að finna útfærslu sem sæmileg sátt getur verið um. Það sem hér er lagt til er mjög einfalt, að sem bráðabirgðaaðgerð, þangað til heildarendurskoðun á tekjuáhrifum og tekjuskattskerfinu er lokið, verði haft bráðabirgðaákvæði í lögum um tekju- og eignarskatt sem feli í sér að samanlögð áhrif, þ.e. að útreikningi tekjutengdra þátta og bótaliða verði þannig háttað að samanlagt hlutfall álagðra skatta og skerðingar bótaliða fari ekki yfir 55%. Punktur. Og það er mjög einfalt mál. Þetta má t.d. gera með því að forgangsraða bótaliðunum til að ákveða hverjir séu skertir eða í hvaða röð þangað til komið er að þessum mörkum. (Gripið fram í: Þetta er of hátt.) Svo geta menn sagt að þetta sé of hátt. Þetta er þó stórkostleg framför fyrir fjölskyldu sem situr uppi með kannski 80% jaðaráhrif. Til þess að vera ekki með óraunhæfan tillöguflutning eða eitthvað sem væri slegið af vegna þess að það væri óraunsæi eða of dýrt var valin sú leið að taka tiltölulega hógvært skref. Það er rétt að 55% skattbyrði er mjög há og það skattalega hagræði sem barnafólki og húsbyggjendum var ætlað í upphafi hefur að mestu leyti drukknað í slíku kerfi. Það er það sem gerist. Með þessum hætti væri a.m.k. verulega komið til móts við þetta fólk. Hér er lagt til að skerðingin gangi í þeirri röð að hún hefjist á vaxtabótum eða húsaleigubótum og barnabótaaukinn sé skertur síðast þangað til að mörkunum er komið og þar verði numið staðar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé auðvelt að gera jafnvel í staðgreiðslunni. Telji menn einhver framkvæmdaleg vandkvæði á að hafa þetta innan staðgreiðslukerfisins er auðveldasti hlutur í heimi að koma við eftiráuppgjöri. Því getur enginn mótmælt að eftiráuppgjör er mjög einfalt í framkvæmd. Ég skal ekki þræta fyrir að einhverjir erfiðleikar kunni að koma upp þegar þetta er sett inn í sjálfa staðgreiðsluna. Þó er að því að hyggja að útreikningur tekjutengdu þáttanna, þ.e. bótanna, barnabótaaukans og vaxtabótanna er ekki um hver mánaðamót heldur nokkrum sinnum á ári og þar af leiðandi er einfaldara mál að koma þessu við í tengslum við þá afgreiðslu heldur en vera þyrfti ef um mánaðarleg staðgreiðsluskil væri að ræða. Ég hafna því að baksa þurfi með þetta mál í einhverri nefnd í felum úti í bæ ár eftir ár og síðan komi hæstv. fjmrh. og segi í öðru orðinu: Þetta er alveg skelfilegt ástand með jaðarskattana. Þetta er vinnuletjandi kerfi, þetta er ómögulegt og hver maður á fætur öðrum kemur hér upp og tekur undir með honum en svo er ekkert gert og menn skjóta sér á bak við að einhver nefnd sé að dunda í málinu úti í bæ. Þetta er ekki frambærilegt. Ef menn meina að þetta sé óréttlátt kerfi og því verði að breyta þá skulu menn gera það eða sýna mér fram á að það sé ekki hægt ella.

Ég minni, herra forseti, aftur á það frv. sem liggur fyrir um þetta mál og leyfi mér að vekja á því athygli þó að það sé ekki hér á dagskrá.

Ég minni líka á að þetta mál er ekki nýtt. Það er rangt að athygli hafi verið vakin á þessu í fyrsta skipti eða það hafi komist upp á yfirborðð í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Strax snemma á síðasta kjörtímabili gerði ég jaðarskattamál ítrekað að umtalsefni. Ég varaði við því á hvaða braut menn væru að fara með sívaxandi tekjutengingu bótaliðanna þegar vaxtabætur voru teknar upp og meiri hluti barnabótanna var færður yfir í hinn tekjutengda barnabótaauka. Og það er líka rangt sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að menn séu fyrst og fremst í þessum tekjutengingarógöngum vegna þess að þeir hafi ætlað að ná fram einhverju félagslegu réttlæti. Það er bara rangt, hæstv. fjmrh. Aðalástæðan er sú að tekjutengingin hefur verið sparnaðaraðgerð af hálfu ríkisstjórna sem hafa verið að skera niður og þá hefur tekjutengingin verið notuð sem aðferð til þess að draga úr útgjöldum til barnafjölskyldna með því að færa sífellt stærri og stærri hluta yfir í hinn tekjutengda hluta barnabótaaukans og hafa minna og minna eftir í grunnbarnabætur. Og með því gerist það að það skattalaga hagræði sem barnafjölskyldur í landinu áttu að breyttu breytanda að hafa umfram hinar, hverfur. Það drukknar í þessari tekjutengingu. Verður því þó ekki á móti mælt að framfærslubyrði barnafjölskyldna án tillits til tekna er meiri heldur en hinna sem ekki eiga börn og það var ætlunin að hafa skattkerfið þannig að það endurspeglaði þennan veruleika. En þessi útfærsla er að drekkja því og sama má auðvitað segja um vaxtabæturnar og aðra slíka þætti.

[19:00]

Aðalógöngurnar eru þó auðvitað þær að á stuttu árabili lenda menn í því að margir tekjutengdir þættir verða virkir samtímis og leggjast hver ofan á annan. Menn eru með tekjutengdan barnabótaauka, menn taka upp tekjutengdar vaxtabætur og menn herða tekjutengdar endurgreiðslur námslána. Mörkin eru svipuð, þ.e. tekjutengingin verður virk á svipuðu tekjubili í öllum tilvikum. Þar með myndast sá fáránlegi skattstigi sem er á Íslandi að prósentan er langhæst á miðlungslaunum eða undir miðlungslaunum en lækkar síðan þegar menn hækka í launum. Auðvitað er þetta hrein geðveiki. Það ætti hvergi að sjást á byggðu bóli að tekjuskattsstigi sé þannig. Það þyrfti helst að vera hægt að bregða upp glærum af þessu, herra forseti. Þetta er þannig viðfangsefni að menn þurfa helst að sjá þetta á mynd.

(Forseti (ÓE): Já. Það hefði verið gott.)

En tekjuskattsstiginn íslenski er sem sagt svona og fer svo aftur lækkandi með hækkandi tekjum ef við lítum á þetta svona og sýnum hæstv. fjmrh. Hann kannski hefur séð þessa mynd áður. (Fjmrh.: Já, já.) Já. Og er þetta einhver glóra að tekjuskattsbyrði manna skuli lækka, herra forseti, þegar komið er upp í einhver tiltekin laun? Það léttist á mönnum skattbyrðin eftir því sem launin hækka. Ég hef hvergi nema á Íslandi séð svona útfærslu á einu kerfi. (Gripið fram í.) Hugsanlega hefur þetta einhvern tíma verið í Argentínu, já, á tíma herforingjastjórnarinnar þar. Það er hugsanlegt að þeir hafi haft þetta eitthvað svipað því að herforingjarnir hafa þá haft það góð laun að þeir hafa viljað gera betur við sjálfa sig en aðra.

Auðvitað væri hægt að hugsa sér, til þess að vega upp á móti slíkri tekjutengingu sem getur átt fullan rétt á sér innan hóflegra marka, að menn væru með fjölþrepa tekjuskattsálagningu þannig að hátekjuþrep tækju við ofan við þau mörk þar sem tekjutengingin hverfur út og að hann sé a.m.k. jafnhár á hæstu laun en ekki lægri heldur en á miðlungslaun eða þar fyrir neðan eins og þetta er í dag. Þá yrði tekjuskattsstiginn eins og hann á auðvitað að vera. Þetta sjá auðvitað og skilja allir menn og það þarf ekki að fjölyrða um það hvílík þvæla þetta ástand er eins og það er í dag.

Ég vona, herra forseti, að nú megi treysta því í ljósi góðra orða hæstv. fjmrh. hér að fjárlagafrv. verði ekki afgreitt, að álagning tekjuskatts fyrir næsta ár, árið sem fer í hönd, verði ekki afgreidd öðruvísi en tekið verði á þessu jaðarskattsmáli. Það er algerlega sjálfstætt útfærsluatriði hvort við viljum gera það þannig að það verði ríkissjóði að kostnaðarlausu eða ekki og ég er til í þann leiðangur að við skoðum þá hvers konar tekjuöflun og hvers konar álagningu við útfærum á móti þeim tekjum sem ríkissjóður kann að missa í gegnum lægri jaðaráhrif á lágtekju- og miðlungstekjuhópana. Það er ósköp einfaldlega útfærsluatriði. Það er spurning um pólitíska ákvörðun hvort við viljum þá breyta tekjuskattsálagningunni í heild sinni með hærri prósentu eða með hærra hátekjuþrepi eða með einhverjum öðrum slíkum ráðstöfunum til þess að útkoma ríkissjóðs verði nettó og þessum galskap sem þarna á sér stað á tilteknu tekjubili gagnvart tilteknum hópum linni. Við getum ekki horfst í augu við þetta lengur eins og þetta er. Ég minni enn og aftur á að það sem gerir það nú enn brýnna en fyrr að taka á þessu máli, en það er unga fólkið sem er að koma úr námi og að hefja endurgreiðslur námslána með þeirri hroðalegu endurgreiðslubyrði og tekjutengingu sem þar er á ferðinni. Það dæmi gengur ósköp einfaldlega ekki upp. Ég skora á þá hér sem hafa efasemdir að verða sér úti um frænda eða kunningja sem er í þessum sporum, er að ljúka námi --- flestir eiga slíka geri ég ráð fyrir --- er að hefja endurgreiðslur á námslánum, er með börn á framfæri, er nýlega búinn að reyna að koma sér upp húsnæði og er á einhverjum svona miðlungstekjum sem opinber starfsmaður. Fari menn í gegnum slíkt dæmi og sýni fram á að það geti yfir höfuð gengið upp. Niðurstaðan mun verða sú að það gerir það ekki. Og það mun síst af öllu verða Lánasjóði ísl. námsmanna til góðs að hafa þetta ástand svona óbreytt því að það mun ósköp einfaldlega skila sér í stórauknum vanskilum á komandi árum ef svo heldur sem horfir.

Síðan, herra forseti, ætlaði ég að ræða lítillega annan efnisþátt þessa máls og hverfa þá frá tekjuhliðinni og spurningunni um álagningu skatta yfir að menntamálunum. Og ég fagna því sérstaklega að hæstv. menntmrh. er í salnum. Það má segja kannski um menntunina svipað og jaðarskattana að hún er mál sem er mikið talað um. Það er mikið talað um gildi menntunar. Þær eru ófáar og fallegar sunnudagsræðurnar sem haldnar eru um það hversu mikilvægt sé fyrir þjóðina og framfarasókn hennar í bráð og lengd að efla menntun. Í því liggi framtíðin og besta fjárfestingin og guð má vita hvað. Og síðast á menntaþinginu sínu var hæstv. menntmrh. að tala um þetta.

En hvað gerist svo hér? Hér kemur fjárlagafrv. þar sem eitt skólastig er alveg sérstaklega tekið fyrir, að vísu með þeim sérkennilegu rökum sem hæstv. forsrh. viðhafði að það væri vegna þess að það væri ekkert meira af hinum að hafa. Hæstv. forsrh. var svo penn að hann útskýrði þetta einfaldlega svona að það væri ekkert meira af háskólanum að hafa og þess vegna yrði að ráðast á framhaldsskólann. Ég vil fá hæstv. menntmrh. hér til að útskýra fyrir okkur hvar, inn í þetta samhengi um gildi menntunarinnar, um bestu fjárfestinguna, um framtíðina, niðurskurðurinn á framhaldsskólunum kemur í öllu góðærinu. Þetta er þannig að framhaldsskólastigið sem slíkt í heild sinni fær nánast óbreytta krónutölu í fjárlagafrv. Það er sagt í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Heildarframlag til framhaldsskóla er áætlað 5.258 millj. kr., sem er hækkun um 37 millj. kr. frá fjárlögum líðandi árs.`` En í töflu á sömu blaðsíðu er að vísu sagt að í fjárlögunum séu þetta 5.257 millj. en í frv. 5.258 og er þarna eitthvert misræmi á ferð sem hæstv. fjmrh. kann vafalaust að skýra. Annars vegar er gert ráð fyrir hækkun upp á tæpa milljón, hins vegar hækkun upp á 37. Þeir snillingarnir í fjárln. eiga líka eftir að fara yfir á hvorum staðnum prentvillan er, enda ekki stórt mál því að það skiptir satt best að segja litlu hvort þarna er á ferðinni aukning upp á 0,1% eða 0,7%. Það breytir ekki miklu þegar það er haft í huga að fjárlögin eru almennt reiknuð upp með um 2,5% hækkun eða eitthvað í nágrenni við það og það vantar þá hér gagnvart framhaldsskólunum. Hjá þeim er skert sem því nemur sem reiknað er með að verðlagið hækki í landinu á næsta ári, ekki satt, úr því að þeir eru með sömu krónutölu. En skerðingin felst líka í raun og veru að mestu í því að nemendum á að fjölga um 2,4%. Það er að vísu einhvers staðar sagt að 19 millj. eða eitthvað svoleiðis séu ætlaðar í það. En það þarf ekki flókinn útreikning til að sýna að það dugar væntanlega skammt á móti fjölgun nemenda upp á eitthvað af þessari stærðargráðu.

Það þarf líka að hafa það í huga að framhaldsskólinn hefur verið að breytast á síðustu árum, t.d. hvað varðar skólasókn, hvað varðar þann fjölda úr hverjum árgangi sem fer í framhaldsskóla eða er í framhaldsskóla. Hæstv. menntmrh. hefur gefið út mikla tölfræðihandbók. Hann hefur yfirtekið að hluta verkefni Hagstofunnar og gefið út tölfræðihandbók um menntun og menningu. Þar kemur m.a. fram í töflu að hlutfallsleg skólasókn árganga á framhaldsskólastigi á árunum 1978--1994 hefur vaxið upp undir 20% t.d. fyrir nemendur á 16 ára aldri, úr 70 og upp í upp undir 90%. Þetta þýðir heilmikla breytingu á þeim veruleika sem menn standa frammi fyrir í framhaldsskólastarfinu. Með öðrum orðum að langstærstur hluti, yfirgnæfandi hluti ungmenna á þessum aldri er að reyna að ljúka framhaldsskólanámi, þar með taldir þeir sem kannski eiga erfiðast um vik og þurfa á meiri stuðningi að halda. Þetta gerir verkefni framhaldsskólanna erfiðara og meira krefjandi. Er verið að koma til móts við það í þessum áherslum sem hæstv. menntmrh. leggur? Það held ég ekki.

Svo um nokkur einstök atriði í þessu sambandi. Fyrst um þá rausn eða reisn sem er yfir því hjá hæstv. menntmrh. að ætla að slá af hússtjórnarskólana, hússtjórnarfræðsluna í landinu. Ætli hv. þm. Jón Kristjánsson sé ekki hreykinn af því að verða í hópi þeirra manna sem greiða með því atkvæði að einn sögufrægasti hússtjórnarskóli landsins á Hallormsstað þar sem margir góðir menn hafa fengið uppeldi sitt verði sleginn af? Eða hússtjórnarskólinn hér í Reykjavík? Og hefði ég þó haldið að það mundi ekki ríða baggamun þó að þessir skólar fengju að halda áfram, þetta nafn fengi að vera til, þetta merka skólastig sem margt gott og mikilvægt mætti um segja. Þó verð ég að segja, herra forseti, að mér finnst taka alveg gjörsamlega steininn úr í þessum efnum hvað varðar útkomu eða áherslur hæstv. menntmrh. eða ríkisstjórnarinnar í málefnum framhaldsskólanna þegar kemur að þremur litlum framhaldsskólum á landsbyggðinni. Að hæstv. ráðherra skuli leggja áherslu á að níðast alveg sérstaklega á þremur litlum framhaldsskólum á landsbyggðinni. Það skil ég ekki. Það finnst mér ómerkilegt. Og að það skuli vera gert án þess að nokkur rökstuðningur af einu eða neinu tagi sé færður fram í greinargerð frv. um það mál er hneyksli því að ef menn sjá ástæðu til þess að skera niður framlög til starfsemi um t.d. 20%, bara sisvona upp úr þurru eins og hér er gert eða lagt til, þá skulda menn a.m.k. einhverjar skýringar á því. Það er mikill vaðall í greinargerðinni um framhaldsskólastigið upp á hátt á þriðju blaðsíðu sem sjálfsagt hefur verið samið í menntmrn. og faxað þaðan niður í fjmrn. Nema þeir séu nettengdir. Það kann að vera. (Fjmrh.: Upp í fjmrn.) Eða upp í fjmrn. Fyrirgefðu, hæstv. fjmrh. Auðvitað er það upp á við. Þeir eru vel tölvuvæddir eins og kunnugt er í menntmrn. og hafa kannski bara sent þetta á línu. En örugglega hafa þeir lesið yfir textann eða ég geri ráð fyrir því að hann sé ekki í mótsögn við vilja hæstv. menntmrh., þ.e. skýringarnar á fjárveitingu til framhaldsskólastigsins. En svo merkilega vill til að um þessar þrjár stofnanir sem sérstaklega er níðst á þarna er ekki eitt einasta orð. Er þetta þó þannig að Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu sem fékk þó 30 millj. á þessu ári á að fá 24. Þar er skorið niður um rúm 20% ef ég hef reiknað rétt. Framhaldsskólinn að Laugum í Reykjadal er með á fjárlögum 33,7 en á að fá 27,6 samkvæmt frv., skorið niður um 18% og framhaldsskólinn á Húsavík sem er ungur skóli í uppbyggingu og var með 52 millj. á þessu ári, á að fá 44,3. Þar er skorið niður um 15%. Hver eru rökin? Hver er stefnan, hæstv. menntmrh., í málefnum þessara skóla eða framhaldsnáms á landsbyggðinni og í hinum dreifðu byggðum almennt? Ég tel það hneyksli ef hæstv. menntmrh. á að komast upp með það að leggja svona hluti til öðruvísi en fyrir því séu færð rök og það sé sett í samhengi við einhverja stefnu eða einhverjar ákvarðanir sem þarna eru á ferðinni. Niðurskurður af þessu tagi þar sem sérstaklega er níðst á einstökum aðilum innan sviðs eins og framhaldsskólastigið er, gengur ekki upp á þennan hátt. Og öll ósköpin sem á að hafa upp úr krafsinu með því að hamast á þessum þremur litlu framhaldsskólum í dreifbýlishéruðum í landinu, hvað er það? Það er eins og þrjár drossíur handa utanrrn. Það er allt og sumt því innan við 20 millj. kr. eða svo eiga þarna að sparast. Er það akkúrat þarna sem mest nauðsynin er að ná út peningum af þessari stærðargráðu?

[19:15]

Ég vona, herra forseti, að við fáum á því skýringar frá hæstv. menntmrh., eða þá þess vegna frá hæstv. fjmrh., hvernig þetta falli inn í skólastefnu og menntastefnu ríkisstjórnarinnar, hver sé þá stefna hennar t.d. varðandi framhaldsnám á landsbyggðinni almennt. Er það skoðun hæstv. menntmrh. að fólkið sem býr í dreifbýlinu þurfi ekki á framhaldsnámi að halda? Er bara sóun að halda uppi kennslu á framhaldsskólastigi yfirleitt nema hér í Reykjavík og kannski á fáeinum vel völdum stórum stöðum annars staðar í landinu? Búa þarna einhverjir annars flokks þegnar sem eiga ekki rétt á þjónustu af þessu tagi? Nú er spölur í næsta framhaldsskóla frá Höfn í Hornafirði úr Austur-Skaftafellssýslu. Ekki fara menn heiman að og heim á degi hverjum til framhaldsnáms ef það verður rústað niður á því svæði. Sama má að sjálfsögðu segja um Þingeyjarsýslur þó að út af fyrir sig mætti færa fram rök fyrir því að þar mætti skipulag framhaldsnáms vera markvissara þar sem starfa tveir sjálfstæðir framhaldsskólar á afmörkuðu svæði. Þá er það allt annað mál. Það er til þess að taka á því með öðrum hætti en þessum að koma svona fram við menn. Ég mótmæli, herra forseti, þessari framkomu við starfsfólkið í þessum skólum. Ég mótmæli þessari aðför að framhaldsnámi og þessum byggðarlögum og ég mótmæli síðast en ekki síst þessari framkomu við nemendur sem horfast þarna í augu við það, hafandi þegar innritað sig í nám í þessum skólum, að það verði kannski að skera niður kennslumagn um nokkurn veginn sama hlutfall og fjárveitingarnar sem hér eiga í hlut. Hvers konar framkoma er það t.d. við nemendur sem þegar hafa innritað sig og hafið nám á þessum stöðum að ætla að koma aftan að þeim með þessum hætti? Það er löðurmannlegt. Ég trú því ekki að þessi niðurskurður nái fram að ganga og treysti því algerlega að þessu verði breytt í meðförum þingsins enda væri allt annað meiri háttar hneyksli, herra forseti.

Tíma mínum er senn lokið enda hafði ég í sjálfu sér fyrst og fremst hugsað mér að ræða þessi tvö meginmál, herra forseti. Hæstv. samgrh. er ekki hér til staðar en það hefði út af fyrir sig verið því miður tilefni til að fara enn einu sinni yfir þá dapurlegu útkomu sem sá málaflokkur fær og er að verða regla en ekki undantekning. Því miður er á ferðinni verulegur niðurskurður framlaga til mikilvægustu þátta samgöngumála eins og vegamála og flugmála en það gefst tóm og tækifæri til að ræða betur síðar, herra forseti, bæði þegar þau mál sérstaklega verða á dagskrá og eins við síðari umræður um fjárlagafrv.