Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 19:20:55 (131)

1996-10-08 19:20:55# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru út af fyrir sig alveg réttmætar ábendingar hjá hæstv. fjmrh. Þetta kemur fram í greinargerð frv. og það var í sjálfu sér ekki það sem ég var aðallega að vara við að menn tækju mark á því að þarna virtist vera um þessa töf að ræða. Ég held út af fyrir sig að það séu alveg eðlilegar skýringar að það hafa verið miklar fjárfestingar og það hefur myndast mikill innskattsstofn til frádráttar, sérstaklega hjá fyrirtækjum. En eftir sem áður er gert ráð fyrir að bæði umsvifin eða veltan, bæði að þessu leyti og eins gagnvart einkaneyslunni verði þessi sem ég var að gera sérstaklega að umtalsefni. Til að mynda er gert ráð fyrir að einkaneyslan aukist um 3,5% ofan á þá aukningu sem er í ár. Það er sérstaklega sú forsenda sem ég vara við. Ég er ekki búinn að sjá það nema menn geri hér þeim mun betri kjarasamninga og fái umtalsverðar kauphækkanir að það reynist þegar á hólminn er komið forsendur fyrir langvarandi aukningu eða einkaneyslustigi af því tagi sem við erum þar að tala um sem endurspeglaðist þá til að mynda í auknum bílainnflutningi og öðru slíku. Það verður reynslan auðvitað að leiða í ljós en ég tel a.m.k. ef maður ber saman t.d. skuldastöðu heimilanna nú við það sem var á síðasta uppsveiflutíma, 1986--1987 eða fram á árið 1988 sem oft er tekið til samanburðar, þá sé að einu leytinu til mjög ólíku saman að jafna og það er þessi mikla skuldaaukning heimilanna sem er bitur veruleiki sem við verðum að horfast í augu við.