Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 19:28:58 (135)

1996-10-08 19:28:58# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vona nú að hæstv. ráðherra sinni skyldum sínum með þeim hætti að hann flytji okkur hér ræðu og fari þar yfir þau atriði sem ég spurði um og innti eftir og komu eðlilega ekki fram í stuttu svari hans eins og um samhengi þessara ákvarðana við stefnuna í málefnum framhaldsskólans og þá sérstaklega náms á framhaldsskólastigi í hinum dreifðu byggðum. Og að bera það fram sem svar að hér sé um að ræða tilfærslu innan ramma gildistalna sem ráðuneytið notar, punktur. Hvers konar svar er það? Halda menn að menn séu einhverju nær á Höfn, á Laugum eða annars staðar? Heldur ráðherra að mönnum sé einhver huggun í því að vita að 20% niðurskurður skýrist af tilfærslu innan ramma gildistalna sem ráðuneytið notar? Þetta er ekki frambærilegt, herra forseti. Það er auðvitað ekki hægt að koma þannig fram við menn að segja bara við þá: Heyrðu, því miður vinur, þið voruð færðir þarna til innan ramma gildistalna sem ráðuneytið notar og það þýðir 20% niðurskurð á ykkur. Punktur, sisvona. (Gripið fram í.) Það er mönnum lítil huggun, það er mönnum í fyrsta lagi lítil huggun þó gefin sé slík skýring. Í öðru lagi að líta á aðstæður þessa skóla. Eru þær á einhvern hátt svo sérstakar að það sé einmitt ekki sanngjarnt að henda þeim inn í ramma þessara gildistalna sem ráðuneytið notar? Og í þriðja lagi er algjört lágmark, það eru lágmarksmannasiðir að að breytingum af þessu tagi sé aðdragandi, að menn fái eitt, tvö, þrjú ár til þess að mæta slíkum breytingum og þær gerist í áföngum ef þær sýnast réttlátar og sanngjarnar á annað borð sem ég er ekki hér með að skrifa upp á nema síður sé. Þetta er því ekki framgangsmáti sem hægt er að una við og skýringar hæstv. ráðherra eru harla rýrar í roðinu. Ég skora á hæstv. ráðherra að gera betur.