Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 19:33:07 (137)

1996-10-08 19:33:07# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki sannfærður þó að mér sé sagt að þessar gildistölur séu grundvallartölur. Það er bara ekki skýring sem dugar mér langt. Og að þetta snúist einfaldlega um að það verði að ákveða bara vélrænt hvort þessir skólar fylgi Iðnskólanum eða Menntaskólanum á Laugarvatni. (Gripið fram í.) Ég spyr um aðstæður þessara skóla, hæstv. menntmrh. Hverjar eru þær? Þarf ekki að líta til þess að hér er verið að halda uppi framhaldsnámi í dreifðum byggðum, í tveimur tilvikum af þremur í heimavistarskólum með tiltölulega fáa nemendur og kannski að einhverju leyti verið að reyna að kenna þar sérhæft nám einmitt vegna þess að skólarnir eru fámennir og þeir geta ekki boðið upp á mjög dreift námsframboð. Mér finnst þetta vélrænn hugsunarháttur sem hér er á ferðinni og mér er alveg nákvæmlega sama þó þetta séu einhverjar gildistölur sem lengi er búið að liggja yfir uppi í ráðuneyti. Ég bara skrifa ekki upp á hann. Ég tel að það þurfi að skoða þarna aðstæður í hverju tilviki og að það þurfi að vera markmið á ferðinni um það. Vilja menn eða vilja menn ekki að til staðar sé framhaldsnám á slíkum svæðum og svara þeirri spurningu.

Ef hæstv. menntmrh. er tekinn á orðinu og þá er hann að reyna að segja okkur að í raun og veru hafi þessir skólar haft 20% of mikið miðað við eðli þess náms sem þar fer fram. Hvers konar rekstur hefur þetta þá verið undanfarin ár? Er verið að segja að þarna hafi verið sóun sem sé hægt bara að kippa út sisvona? Þetta gerist ekki svona, hæstv. menntmrh., að ekki með ... (Menntmrh.: Þetta gerist svona.) Það á að gerast svona, sem sagt. Þetta er stjórnunarstíllinn sem hæstv. menntmrh. vill innleiða í menntakerfinu, þessi vélræni hugsunarháttur gildistalnanna. Innan ramma gildistalna hins heilaga ráðuneytis suður í Reykjavík skulu menn sitja og standa í þeim framhaldsskólum sem fá að halda lífi úti á landsbyggðinni. Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast enn meir eftir því sem þessi orðaskipti lengjast við hæstv. menntmrh. Og geðleysi þeirra stjórnarþingmanna sem ætla að skrifa upp á þetta má mikið vera. (Gripið fram í: Hvar er Blöndal?) Heyr. Heyr.