Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 21:46:31 (146)

1996-10-08 21:46:31# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[21:46]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort við eigum að hefja kennslustund í ríkisfjármálum. Við getum kannski gert það. Ég reyndi að draga fram í ræðu minni að aðalatriðið varðandi ríkisfjármál er í hvað við eyðum fjármununum því að það er það sem endurspeglast inn í hagkerfið, hvort það leiðir til vaxtar í hagkerfinu eða hvort það leiðir til samdráttar eða óráðsíu í því sem við höfum úr að spila. Þetta er aðalatriðið í öllum ríkisfjármálunum og þetta er það sem hæstv. fjmrh. glímir við á hverjum einasta degi. Hann veltir fyrir sér í hvaða málaflokka hann ætlar að eyða þessum 125 milljörðum. Þetta er aðalatriði í ríkisfjármálum. Vitaskuld er æskilegt að jöfnuður sé í ríkisfjármálum. Hæstv. fjmrh. þarf ekki að kenna mér neitt um hin neikvæðu áhrif í hagkerfinu af að búa við halla í ríkisrekstri.

Í fjárlagafrv. er ekki tekið á neinni kerfisuppstokkun. Ef hæstv. fjmrh. heldur að eitthvert gagn sé í því fyrir hagkerfið að eyða í landbúnaðarmál mörgum milljörðum meira en allar nágrannaþjóðirnar í rangt kerfi og slæma uppbyggingu og að það hafi ekki neikvæð áhrif á hagkerfi okkar þá fer hann villur vegar. Menn eiga að velta fyrir sér með hvaða hætti þessum fjármunum sé varið. Það er ekki aðalatriðið og hæstv. fjmrh. veit að það skiptir ekki efnahagslega höfuðmáli hvort það er plús einn eða mínus tveir. Hins vegar er jákvæður rekstur í ríkisfjármálum mjög sterk skilaboð til annarra aðila í hagkerfinu ef það er stutt með aðgerðum í peningamálum eins og hefur verið gert að hluta til hjá núv. ríkisstjórn. Að því leyti til eru ríkisfjármálin í jafnvægi mjög mikilvægt markmið í efnahagsstjórn. En að líta á þetta út frá því sjónarmiði sem ríkisstjórnin gerir og einblína bara á jöfnuð, jöfnuð, jöfnuð án þess að skoða samsetningu útgjalda og tekna er ekki góð efnahagsstjórn.