Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 21:49:22 (147)

1996-10-08 21:49:22# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[21:49]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að í öllum rekstri hlýtur að skipta mestu máli að safna ekki upp skuldum þannig að menn þurfi síðar meir við verri skilyrði að greiða bæði niður skuldirnar og borga jafnframt sífellt fjármagnskostnaðinn af þessum skuldum. Mér finnst hv. þm. hafa gert of lítið úr þessu með því að kalla þetta trúaratriði. Ekki er nokkur einasti vafi á því að þetta er mikilvægasta atriðið. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að auðvitað skiptir máli hvernig fjármununum er varið. Á því hefur verið tekið á undanförnum árum. Vegna þess að hv. þm. nefndi landbúnaðarmálin sérstaklega er kannski ástæða til þess að láta það koma fram að Íslendingar hafa á undanförnum fjórum til fimm árum tekið þannig á landbúnaðarmálunum að aðrar þjóðir hafa ekki gert eins. Samdráttur útgjalda til landbúnaðarmála hefur verið um 40% á undanförnum árum og það er allgóður biti og áfram verður haldið. Fulltrúar landbúnaðarins og bændur hafa að sjálfsögðu tekið fullan þátt í þessu þannig að það er verið að taka á svokölluðum strúktúrvandamálum í íslensku þjóðfélagi. Það er ekki gert með byltingu. Það er gert hægt og rólega til þess að við þurfum ekki að fara í gegnum kollsteypur.

Við höfum tekið á málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Í stað þess að safna þar upp óreiðuskuldum var tekið á því máli og svona má lengi telja. Við eigum auðvitað mörg verkefni eftir. Á þessum málum hefur hins vegar verið tekið. En stærsta strúktúrvandamálið í opinberum rekstri var auðvitað sjálfur hallinn á ríkissjóði, það hljótum við þó að vera sammála um. Það var stærsti vandinn og við erum að reyna að ráða bót á þeim vanda í frv. og vonandi tekst okkur að halda því áfram.

Ég held að að öðru leyti séum við kannski nokkuð sammála. Eins og ég sagði áðan mun ég koma að öðrum þáttum sem voru mjög mikilvægir í ræðu hv. þm. og mun geyma mér það þar til í síðari ræðu.