Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 21:53:19 (149)

1996-10-08 21:53:19# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[21:53]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Þær umræður sem ég hef hlýtt hér á hafa verið merkilegar fyrir margra hluta sakir. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að hlusta á hv. þm. Sturlu Böðvarsson og Ágúst Einarsson takast á um vegamál og minnti mig á lengsta orð sem ég lærði í skóla sem var vegavinnuviðhaldsverkfærageymsluskúr.

Mig langar að taka til máls um fjárlagafrv. og í umfjöllun minni ætla ég ekki að fara í einstaka liði heldur fara almennum orðum um þá stefnu sem birtist í frv. Ég tek fram að ég er ekki í fjárln. en hef samt áhuga á því að taka til máls í örfáum orum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að eitt af meginmarkmiðum hennar er að minnka halla ríkissjóðs, m.a. til þess að verja velferðarkerfið til framtíðar. Þetta markmið er afar mikilvægt. Fjárlög næsta árs sýna að tekist hefur að snúa ríkisfjármálum til betri vegar. Tekjur umfram gjöld eru samkvæmt fjárlagafrv. 1 milljarður og er hér í fyrsta sinn síðan 1985 afgangur á fjárlögum. Þetta er að sjálfsögðu afar jákvætt. Íslenska þjóðin getur ekki leyft sér til lengar að safna skuldum. Tölurnar tala þar sínu máli. Í ár er íslenska ríkið að borga um 13 milljarða í vexti vegna skulda og næsta ár er áætlað samkvæmt fjárlagafrv., sem við erum að fjalla um, að vaxtagreiðslur verði 13,5 milljarðar. En þessi upphæð er hærri en sú upphæð sem varið er til alls skólahalds í landinu.

Fyrir nokkru reiknaði Þjóðhagsstofnun út ýmsar hagfræðistærðir vegna áætlunar ríkissjóðs í ríkisfjármálum. Fyrirsjáanlegt er að mæta þarf auknum gjöldum m.a. vegna fjölgunar ellilífeyrisþega, aukinnar ásóknar í skólakerfið, dýrari lyfja og tækjakostnaðar í heilbrigðiskerfinu og ef ekki væri beitt neinum aðhaldsaðgerðum vegna framangreindrar þenslu yrði að stórhækka skatta til þess að mæta þessum útgjaldaauka. Reiknað hefur verið út að það þyrfti að hækka tekjuskatta ef ekkert yrði að gert úr 42% í 50% en slíkar skattahækkanir eru að sjálfsögðu ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Framsfl. sagði mjög skýrt við síðustu kosningar að ekki bæri að hækka skatta. Það ætti frekar að stefna að lækkun skatta, sérstaklega á seinni hluta kjörtímabilsins, ef tækist að halda uppi sæmilegum hagvexti á kjörtímabilinu. Staðan er núna þannig að verði þeim aðhaldsaðgerðum beitt sem ríkisstjórnin hefur ákveðið þannig að ríkissjóður fari að skila afgangi, muni skuldir ríkissjóðs lækka úr 48% af landsframleiðslu í 40% um aldamótin. Komandi kynslóðir þurfa þannig ekki að óttast miklar skattahækkanir ef þessari þróun verður við haldið og þetta er að sjálfsögðu afar jákvætt fyrir ungt fólk.

Sem betur fer er vaxandi skilningur á þessu sjónarmiði gagnvart skuldasöfnun og sá skilningur er ekki síst hjá ungu fólki sem gerir sér grein fyrir vandanum. Þetta sjónarmið verða ábyrgir ríkisstjórnarflokkar að hafa að leiðarljósi þó að það væri að vísu mun þægilegra og áreynsluminna að leiða þjóðina áfram á braut skuldasöfnunar. Slík þægileg og áreynslulaus leið er alls ekki ásættanleg. Það að vilja geta allt fyrir alla gengur ekki. Slík undanlátssemi yrði að lokum til þess að ekkert yrði eftir handa neinum. Ef þannig yrði á málum haldið mundi velferðarkerfið að sjálfsögðu sligast undan verðbólgu og háum vöxtum og það má sjá fyrir sér að í versta falli gæti sjálfstæði þjóðarinnar verið í hættu ef við mundum safna gífurlegum erlendum skuldum. Lántökur fyrri ára eru núna að birtast okkur í formi aðhalds í ríkisfjármálum og það má segja að þessar gífurlegu vaxtagreiðslur sem við erum núna að inna af hendi séu timburmenn þess tíma.

Í bæklingi um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og ber heitið ,,Frá hallarekstri til tekjuafgangs`` og var nýlega dreift í hús er ein tala sem mér þykir ansi óhugguleg en hún staðfestir hvað vaxtagreiðslurnar hafa verið magnaðar sem þjóðin hefur verið að greiða. Í bæklingnum kemur fram að á tímabilinu frá 1985--1996 eða á um 10 árum hafa vaxtagreiðslur ríkissjóðs numið um 110 milljörðum. Þetta er óhugnanleg tala. Með aðhaldi í ríkisfjármálum eins og birtist í fjárlagafrv. er stuðlað að því að viðhalda stöðugleikanum svokallaða, þ.e. að halda niðri vöxtum og lágri verðbólgu, og það er að sjálfsögðu fjölskyldunum og heimilunum mjög mikilvægt í landinu. Maður spyr sig eftir að hafa hlustað á umræður: Vill einhver innleiða óstöðugleikatímabil í efnahagslífinu? Varla. Stöðugt efnahagsástand þar sem vextir eru lágir og verðbólga lítil gerir fyrirtækjum líka kleift að blómstra og minnka þannig atvinnuleysið. Atvinnuleysi hefur einmitt minnkað. Það er núna um 4% og á árinu 1996, á þessu ári, er gert ráð fyrir því að 3.000 ný störf skapist og þau 12.000 störf sem Framsfl. stefndi að að yrðu til fyrir aldamótin munu skila sér og sennilega gott betur.

Hæstv. félmrh. lýsti því einmitt í gær að hafa þurft að veita um 70 atvinnuleyfi fyrir Pólverja vegna þess að það vantar fólk til starfa í fiskvinnslu. Það er svo sem gott og gilt. Að minnsta kosti er mjög jákvætt að atvinnuleysið minnkar því að atvinnuleysið er mikið þjóðfélagsböl sem á sér margar dökkar hliðar, sérstaklega fyrir líf þeirra fjölskyldna sem í því lenda til lengri tíma litið.

[22:00]

En hvað með kaupmáttinn? Hann var ræddur talsvert í gær. Meðal annars vegna stöðugleika í efnahagsmálum hefur kaupmáttur verið að aukast. Kaupmáttur ráðstöfunartekna mun aukast um 8--9% á árunum 1995--1996 samkvæmt spám og það er tvöfalt meiri kaupmáttaraukning en búist er við að jafnaði í Evrópulöndum OECD á þessum umræddu tveimur árum. Það er einnig mjög athyglisvert að samkvæmt spám Þjóðhagsstofnunar mun kaupmáttur aukast um 15--16% frá árinu 1995 til aldamóta. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt að sjá fram á svona mikinn kaupmáttarauka. Jaðarskattaáhrif hafa einnig minnkað að undanförnu og nefnd er að skoða frekari lækkun jaðarskatta, en það kom einmitt fram í umræðunum áðan. Það er einnig hugsanlegt að fjármagnstekjuskatturinn svokallaði sem m.a. var komið á í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, við fulltrúa ASÍ sem skilaði ekki séráliti heldur samþykkti þá leið sem farin var, að sá tekjuauki sem kemur inn í gegnum fjármagnstekjuskattinn verði notaður í skattalækkanir að einhverju leyti. Þrátt fyrir allt svartsýnistalið sem við hér inni höfum mátt heyra frá sumum stjórnarandstæðingum í kvöld, þá eru staðreyndirnar þær að lífskjör á Íslandi eru almennt mjög góð. Auðvitað er alltaf hægt að benda á fólk sem hefur það ekki nógu gott og það er að sjálfsögðu okkar hlutverk að bæta úr því. En almennt eru þó lífskjör góð á Íslandi.

Í mjög athyglisverðri grein eftir Stefán Ólafsson, prófessor og forstöðumann Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag, 6. október, er lýst niðurstöðum lífskjarakannana á Íslandi og annars staðar. Í niðurstöðum greinarinnar segir Stefán Ólafsson, með leyfi forseta:

,,Þegar á heildina er litið benda niðurstöðurnar til þess, að lífsgæðin á Íslandi séu áþekk því sem best þekkist á Vesturlöndum. Það eru hins vegar ekki rök fyrir því að slá slöku við í lífsgæðakapphlaupinu og framfaraleitinni, enda er af nógu að taka fyrir þá sem vilja bæta velferð þjóðarinnar.``

Í greininni er einnig lýst hvað ólíkir einstaklingar skilgreina lífsgæðin ólíkt. Varpað er fram afar athyglisverðum spurningum sem við Íslendingar spyrjum okkur allt of sjaldan. Spurningarnir eru t.d. þessar: Hvort skiptir meira fyrir lífsgæðin að búa í góðu húsnæði eða hafa miklar frístundir? Hvort skiptir meira máli fyrir lífsgæðin að hafa meiri kaupmátt til einkaneyslu eða lifa lengur? Hvort skiptir meira máli fyrir lífsgæðin að hafa hærra kaup eða minna atvinnuleysi? Hvort skiptir meira máli fyrir lífsgæðin að hafa hærra menntastig þjóðarinnar eða minni launamun milli þjóðfélagshópa? Hérna eru afar athyglisverðar spurningar bornar fram sem við hugsum trúlega allt of lítið um að svara. Þessar spurningar eru því mjög áleitnar.

En ein er sú spurning sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa spurt sjálfa sig að og svarað. Sú spurning er svona: Hvort er skynsamlegra fyrir þjóðfélagið að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum eða ekki? Svarið liggur að sjálfsögðu í því fjárlagafrv. sem við erum að fjalla um.

Sú stefna sem birtist í framlögðu fjárlagafrv. og er svarið við þessari spurningu er að sjálfsögðu að það er skynsamlegra að viðhalda stöðugleikanum.