Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 23:54:49 (160)

1996-10-08 23:54:49# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[23:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það líður væntanlega senn að lokum þessarar umræðu sem hefur staðið lengi dags, enda er komið fast að miðnætti. Mig langar til þess að ræða um örfá atriði sem hafa komið fram í umræðunum og ég tel ástæðu til að minnast á. Ég hef þó reynt eins og endranær í umræðum um fjárlög eftir að þingsköpum var breytt að svara nokkrum atriðum jafnóðum og tel það til bóta fyrir umræðuna að það sé gert til þess að meiri samfella myndist í rökræðunum, viðræðum okkar hér á hinu háa Alþingi en að ekki komi öll svör í lokin.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir ræddi um atvinnuleysi kvenna og ég held að það sé vissulega þess virði að leiða aðeins hugann að því máli og reyndar atvinnuleysinu almennt. Auðvitað gefst ekki tækifæri til þess í þessari umræðu að tæma þetta umræðuefni, en það er full ástæða til að benda á að líklega hefur atvinnuþátttaka kvenna aldrei verið meiri hér á landi en einmitt nú. Hins vegar hefur atvinnuleysi verið mikið, einfaldlega vegna þess að konur í atvinnuleit, eins og það heitir, því að aðrir eru ekki á atvinnuleysisskrá eða eiga a.m.k. ekki að vera á atvinnuleysisskrá, eru miklu fleiri en áður. Það er með öðrum orðum meiri vilji til þess en nokkurn tíma áður að fara út á vinnumarkaðinn og auka enn atvinnuþátttöku kvenna. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur og þetta þarf að kanna og satt best að segja hefur nokkuð verið kannað hvaða konur eru á atvinnuleysisskrá og hvað veldur því að þær eru miklu fleiri á skránni en karlmenn. Hér gefst ekki tækifæri til að fara ofan í það mál, en ég hygg að það sé fullt efni til þess og að skoða þetta með hliðsjón af öðrum bótakerfum samfélagsins. Það mál hefur verið skoðað nokkuð, um þetta hefur verið rætt og ritað. Ég minnist þess að nýlega var skrifað um þetta í blaðið Vísbendingu og þar á meðal af framkvæmdastjóra Hjúkrunarfræðingafélags Íslands, Vigdísi Jónsdóttur, sem skrifaði ágæta grein um kenningar um þau efni hvers vegna launamunur væri á milli kynjanna og vék þá að þessu máli á þann hátt sem ástæða er til að benda á.

Í fjmrn. höfum við einnig tekið saman upplýsingar um atvinnuþátttöku og atvinnuleysi kvenna og ég er tilbúinn til þess hvenær sem er að ræða það frekar þegar tilefni gefst til því að mín skoðun er sú að þegar til lengri tíma verður litið muni sú aukna menntun sem konur sækja í nú skila sér í jafnari launum, jafnvel þótt enn um sinn virðist það koma fram og kemur fram mjög rækilega að konur með meiri menntun hafi lægri laun heldur en karlar með minni menntun. Um þetta hefur mikið verið rætt, ekki einungis hér á landi heldur í blöðum sem gefin eru út ytra, þar á meðal nýlega í breska blaðinu The Economist sem gerði verulega úttekt á þessu máli og ég held að það sé fyllilega ástæða til að halda því til skila og ræða það á hinu háa Alþingi á næstunni. Því að þetta er mikilvægt mál, hvernig við stillum saman bótakerfi hér á landi, ekki einungis atvinnuleysisbótakerfi heldur einnig fæðingarorlof og fleira sem skiptir konur og karla að sjálfsögðu máli og ætla ég ekki frekar að ræða það hér, en nefndi þetta aðeins vegna þess að hv. þm. gerði það að umtalsefni að atvinnuleysi kvenna væri enn talsvert og talsvert meira en atvinnuleysi karla. Mín skoðun er sú og það er ekki sagt með neinni sérstakri meiningu heldur einungis til þess að benda á það sem ég hygg að sé staðreynd að það sé mjög erfitt að draga verulega úr atvinnuleysi kvenna frá því sem nú er miðað við það kerfi sem við búum við. Þá á ég við það að taka verður tillit til þess að stór hópur kvenna sem er á atvinnuleysisskrá eru konur sem eru ekki í fullum störfum og taka ekki fullar atvinnuleysisbætur.

Hv. þm. ræddi um ferðalög sem kostuð væru af opinberum aðilum og það ber vissulega að taka undir að þau eru dýr og hafa færst í aukana, ekki síst vegna aukinna samskipta Íslands við önnur ríki, m.a. vegna Evrópska efnahagssvæðisins, en einnig vegna þess að Íslendingar telja að þeir þurfi á frekari og greiðari samskiptum á að halda kannski vegna þess að þeir hafa ákveðið að standa a.m.k. enn um sinn utan Evrópubandalagsins. Það sem kannski vekur athygli og fæstir tala um hér er að þessi kostnaður hefur líklega langmest aukist á hinu háa Alþingi. Ég er ekki að gagnrýna það í sjálfu sér en bendi á það því að það virðist enginn úr hópnum hafa sérstakan áhuga á því að vekja athygli á þeirri miklu aukningu sem hefur orðið á utanlandsferðum alþingismanna.

Þá ræddi hv. þm. um Schengen-samstarfið og eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort við verðum aðilar að þessu samstarfi í framtíðinni, en við höfum ákveðið að taka þátt í undirbúningsstarfseminni og af þeirri háu upphæð sem hún nefndi að við þyrftum að kosta til á næsta ári eru 20 millj. sem ganga beint til stofnkostnaðar sem er kostnaður sem ekki kemur fyrir nema einu sinni og varðar upplýsinga- og tölvukerfi vegna þess arna. Að öðru leyti er það síðan stór kostnaðarliður að okkur er skylt að greiða hærra kostnaðarhlutfall í þessu undirbúningsstarfi en við erum vön í samstarfi við aðrar þjóðir eins og t.d. Norðurlandaþjóðirnar. En við vonumst til þess að áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir verði það tekið með í reikninginn að við erum margfalt smærri heldur en framlag okkar til sameiginlega verkefnisins er þessa stundina.

[24:00]

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, sem er reyndar ekki lengur viðstaddur í kvöld, sagði að víða vantaði samkeppni í íslenskt efnahagslíf og í því sambandi benti hann á landbúnaðarkerfið, sjávarútveginn og fleiri þætti. Ég ætla ekki að ræða það sérstaklega en ég kemst ekki hjá því vegna þessa að benda á að einmitt um þessar mundir er að ljúka starfi nefndar sem starfar á vegum iðnaðarráðuneytisins um orkubúskapinn þar sem má gera ráð fyrir hugmyndum sem eru verulega frábrugnar því kerfi sem við þekkjum í dag og þar sem lagt verður upp úr meiri samkeppni. Til þess að gleðja hv. þm., sem er mikill áhugamaður um frjáls viðskipti og samkeppni, hygg ég að hugmyndir í þessum mikilvæga búskap, orkubúskapnum, verði til umræðu á næstu vikum.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, eins og reyndar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, ræddi nokkuð um vexti og þann vaxtamun sem hefur orðið hér á landi og í nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Það er rétt að til skamms tíma voru vextir hér nokkru lægri en t.d. í Svíþjóð. Skýringarnar eru auðvitað þær að í Svíþjóð voru meiri erfiðleikar í efnahagslífinu en komu fram hér á landi sem urðu þess valdandi að vextir á tímabili í Svíþjóð voru þeir allra hæstu í Evrópu.

Mér finnst ástæða til að nefna það í umræðunni við hverju við getum búist á næstu missirum í þessum efnum. Nú er það svo að efnahagslíf á Íslandi er í allt annarri stöðu en efnahagslíf nágrannaþjóðanna. Mismunurinn er fólginn í því að hér á landi er ekki sparnaður, hér á landi er viðskiptahalli. Þess vegna er miklu auðveldara að ná tökum á ríkisfjármálunum en nokkurn tíma í nágrannalöndum okkar eins og ég gat rækilega um í upphafsræðu minni hafi það farið fram hjá einhverjum í salnum.

Annars staðar horfir þetta allt öðruvísi við. Ef við lítum til Evrópubandalagsins er það þannig í flestum ríkjum bandalagsins að um verulegan sparnað almennings er að ræða en ekki eyðslu, ekki einkaneyslu eins og hér er um að ræða, sparnað og viðskiptaafgang vegna þess að þessar þjóðir óttast að ný kreppa muni ríða yfir. Þeir eru ekki vanir því, það er ekki hluti af þeirra menningu ef svo má að orði komast, að gera út á gróðann fyrir fram eins og Íslendingar eru þekktir fyrir. En hvaða þýðingu hefur þetta fyrir vextina? Jú, það má búast við að ríkisstjórnir innan Evrópubandalagsins muni á næstu missirum fara fram á það með einum eða öðrum hætti við seðlabanka þessara þjóða að lækka vextina verulega til að framkalla eftirspurn og þannig freista þess að ná niður ríkissjóðshallanum til þess að þeir geti staðist þær kröfur sem þeir hafa sjálfir sett sér í Maastricht-samkomulaginu. Ef þetta gerist með þessum hætti, sem er auðvitað ekki alveg öruggt, getum við búist við að vextir í nágrannalöndum okkar verði talsvert lægri en hér á landi á næstu missirum. Það þýðir ekki að vextir muni hækka hér, þeir gætu lækkað en vaxtamunurinn, munurinn á vöxtum sem hér er boðið upp á, bæði innláns- og útlánsvöxtum að sjálfsögðu og vextir sem bjóðast annars staðar, það verður ákveðinn munur vegna þess að það er ólík staða í efnahagslífi okkar annars vegar og þeirra hins vegar. Þetta er athyglisvert og við þurfum að hafa auga á þessu og við þurfum einnig að fylgjast með því sem er algjör nýjung að eftir að lánshæfismatsfyrirtækin gáfu okkur betri einkunn en áður hefur athygli erlendra fjárfesta beinst að Íslandi, þ.e. þeirra fjárfesta sem eru að kaupa skuldabréf vegna þess að vextir eru hærri hér en annars staðar. Ef viðskipti verða frjáls með slík bréf leitar slíkt viðskiptafrelsi í ákveðið jafnvægi þegar fram líða stundir.

Af hverju er ég að flytja þessa ræðu hér og nú? Það er vegna þess að þetta er eitt af því sem hefur breyst hér á landi. Við búum með öðrum orðum ekki lengur einir, höfum ekki lokuð landamæri lengur, heldur höfum við opnað fyrir fjármagnsflutninga til og frá landinu og getum ekki lengur brugðið fyrir okkur þeim tækjum sem við gátum gert fyrir nokkrum árum. Við verðum að nota ný tæki sem eru þá fyrst og fremst peningamálalegs eðlis og svo fjármálalegs eðlis, þ.e. að ná hallanum á ríkissjóði, skila tekjuafgangi til að hamla gegn hættulegum áhrifum viðskiptahallans og umframeyðslunnar. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Ágúst Einarsson flutti ræðu og ég vil þakka honum fyrir fyrri hluta ræðu hans. Þar kom hann sem er mjög sjaldgæft af stjórnarandstöðuþingmönnum að mörgum atriðum sem eru jákvæð í frv. og nefndi þau og þar á meðal hve nauðsynlegt það er að greiða niður erlendar skuldir. Erlendar skuldir ríkissjóðs eru hættulega miklar að mínu áliti. Þegar viðskiptahalli verður erum við í raun að auka skuldir þjóðarinnar sem við höfum þó verið að greiða niður á undanförnum tveimur til þremur árum. Enn á ný undirstrikar þetta það verkefni okkar sem við erum einmitt að fást við í ríkisfjármálunum, þ.e. að skila ríkissjóði með afgangi.

Hv. þm. spurði síðan um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Ég vil segja frá því hér að það er starfandi nefnd á vegum fjmrn. undir forustu Steingríms Ara Arasonar að þessum málum. Ég á von á því að síðar í mánuðinum skili nefndin niðurstöðu sinni. Auðvitað er það ekki öldungis víst en ég á von á því þannig að ríkisstjórnin geti fjallað um tillögurnar. Vonandi gerist það í framhaldi af því að frv. verður flutt á Alþingi. Í nefndinni eiga sæti fjórir fulltrúar opinberra starfsmanna. Þetta eru vissulega mál sem snerta kjör þeirra mjög mikið. Þess verður að gæta að sæmileg eða góð samstaða náist um niðurstöðuna.

Ég get ekki hér og nú farið að lýsa einstökum atriðum í tillögunum sem þarna er verið að vinna að en get þó sagt að tillögurnar munu væntanlega byggjast á því að nýir starfsmenn ríkisins búi við annað kerfi en þeir sem nú eru starfsmenn. Það gæti þó verið opið þannig að eldri starfsmenn gætu eignast aðild að nýja kerfinu. Aðalatriðið er að í nýja kerfinu eru réttindin jafngild því sem er í núgildandi kerfi og ríkið mundi leggja inn í sjóðinn greiðslur sem ætlað er að standi undir skuldbindingum sjóðsins fram í tímann en það er mjög erfitt núna af ástæðum sem ég ætla ekki að fara frekar út í. Þetta þýðir ekki síst að væntanlega yrði greitt af öllum launum en ríkið yrði þá að greiða meira en 6% inn í sjóðinn til að samtímagreiðslur stæðu undir skuldbindingum.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta. Þetta eru tillögur sem auðvitað geta breyst. En af því að hv. þm. spurðist fyrir um þetta tel ég það skyldu mína í framhaldi af því að leggja fram hallalaust frv. að ráðast á þann halla sem er reikningshalli ríkissjóðs og kemur fram í því að við erum að safna upp skuldbindingum í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og við erum að safna skuldum sem eru vegna þess að vextir falla á okkur sem þarf ekki að greiða í ár en safnast upp og þarf að greiða í framtíðinni og koma ekki fram á greiðslugrunni fjárlagafrv. en ýta enn undir það að okkur sé brýn nauðsyn á því að loka ríkissjóði með tekjuafgangi.

Hv. þm. ræddi síðan um vegamál og ég ætla ekki að þreyta menn á þeirri umræðu. Hún var þó að mínu mati merkileg. Það er ekki oft sem þessi sjónarmið heyrast í Alþingi og fáir eru svo kjarkaðir að þeir þori að taka upp í sig eins og hv. þm. Ég vil þó nefna af þessu tilefni og þá væntanlega til að styðja nokkuð sjónarmið hv. þm. og af því að hann minntist á ráðstefnu sem haldin var á vegum fjmrn. og viðskrn. eða iðnrn., að einmitt þar var rætt um hve hættulegt getur verið að beina hagfræðilega í macro-hagfræði, ef ég má orða það þannig, sjónum að fjárfestingum eins og þær séu allar jafngildar til að skapa framtíðarstörf. Það er nefnilega ekki þannig. Sumar fjárfestingar eru lakari en aðrar. Það er það sem ég vildi sagt hafa og styður kannski þá kenningu sem hv. þm. var með hér. Í staðinn vilja ýmsir hagfræðingar stokka upp hugtakið fjárfesting þegar það er notað í þessum tilgangi og bæta við hugtakið fjárfestingar sem óáþreifanlegum fjárfestingum sem eru til í þjóðfélaginu en eru ekki merktar sem fjárfestingar. Dæmi um þetta er t.d. hugbúnaður í tölvur sem öll fyrirtæki í landinu og ríkið þar með taka inn sem venjulegan rekstur en er í raun og veru óáþreifanleg fjárfesting því með því að vinna með þennan hugbúnað erum við að byggja upp mikla fjárfestingu í því fólki sem vinnur við þetta. Til viðbótar erum við að búa til rannsókna- og þróunarverkefni fyrir hugbúnaðariðnaðinn. Íslendingar ákváðu að leggja ekki skatta á vélbúnað vegna tölva. Það er kannski fyrst og fremst þess vegna sem Íslendingar hafa náð betri tökum en flestallar ef ekki allar þjóðir í heiminum á tölvutækninni. Í þessu felst auður sem mælist ekki þegar verið er að mæla fjárfestingarhlutfall frá einum tíma til annars. Þetta þurfum við að hafa í huga því okkur er svo gjarnt að taka fjárfestinguna úr micro-hagfræðinni innan úr fyrirtækjunum þar sem spurningin er skattalegs eðlis um það hvort það eigi að gjaldfæra hlutinn á einu ári eða mörgum árum og segja: Þessi fjárfesting sem er kölluð fjárfesting í bókhaldi fyrirtækjanna hlýtur að skila sér í störfum í framtíðinni. (Gripið fram í: Sama gildir um menntun.) Þetta er ekki þannig vegna þess að í sumum tilvikum er t.d. verið að leggja í steinsteypu sem nýtist ekkert en annars staðar er verið að leggja í óáþreifanlega fjárfestingu sem nýtist margfalt betur. Og af því að hv. þm. kallaði fram í ,,menntun`` þá er það vissulega svo. Íslendingar eiga stundum dálítið erfitt með að hugsa abstrakt og það má vel vera að þessi hugsun sé dálítið framandi. En hún er ekkert ný hún er ekkert original. Um þetta hefur oft verið rætt. En það kann vel að vera að við eigum einmitt nú þegar við erum að ræða þessa hluti og stöndum á nokkrum tímamótum í ríkisfjármálum að taka málin upp og ræða þetta með ferskum hætti. Þess vegna held ég að ræða hv. þm. hafi átt hér erindi í kvöld þótt ég búist við því að nánast allir þingmenn aðrir og ekki síst hans flokksmenn hafi litið hann heldur óhýru auga fyrir að nefna þetta atriði í sinni ræðu.

[24:15]

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi um veiðileyfagjaldið. Ég held að ég geymi mér það þar til síðar að ræða það frekar en bendi á að gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv. og sagt frá því, að samræmt verði tryggingagjald sem þýðir auðvitað að þeim mismun sem verið hefur á atvinnugreinum hingað til verður eytt og sjávarútvegurinn hefur verið í lægra þrepinu þannig að þetta ætti a.m.k. að gleðja hjörtu þeirra sem eru harðastir í því að skattleggja sjávarútveginn meira en hann er skattlagður.

Um Byggingarsjóð verkamanna ætla ég að vera fáorður. Hv. þm. er ekki viðstaddur. En ég bendi á að á bls. 30 í stjórnsýsluendurskoðunarskýrslunni um Húsnæðisstofnun ríkisins er fjallað um það mál sem hún gerði að umtalsefni og þar er svarað þeim spurningum sem hún bar upp og þau ræddu hér, hæstv. núv. félmrh. og hún. Hún spurðist fyrir um hækkun dómsmálagjalda. Ég get upplýst hana um að ætlunin er að þau hækki í takt við verðlagshækkanir frá því að þau voru hækkuð síðast og þær aukatekjur sem munu fást inn af því fara til þess að standa undir auknum kostnaði við starfsemi sem fellur undir dómsmrn.

Hv. þm. Þuríður Backman flutti tölu sem átti fullt erindi að sjálfsögðu. En hún ræddi um eitt atriði sem voru skattsvik. Það voru hennar lokaorð að það þyrfti að taka á skattsvikum. Ég er henni að sjálfsögðu sammála um það. Ég vil þó og kemst ekki hjá því að benda á að hér á landi hefur ekki í annan tíma verið tekið jafnfast á skattsvikum en einmitt nú, bæði með eftirliti sem við köllum svo sem fer fram á vegum skattstofanna þar sem velt er við framtölum þeirra sem telja fram, en einnig með rannsóknum sem við köllum þegar skattrannsóknarstjóri leitar uppi þá sem ekki eru í skattkerfinu en ættu að vera í skattkerfinu, þ.e. að þeim sem koma ekki fram í okkar skattkerfi en eru í neðanjarðarhagkerfinu. Að þessu tvennu hefur verið unnið undanfarin ár meira og betur en nokkurn tíma fyrr.

Hv. þm. Svavar Gestsson, síðasti ræðumaður, ræddi um sjúkrahúsin í Reykjavík og sagði að við værum að skilja eftir sama vandamálið og í fyrra. Það er rangt. Af hverju er það rangt? Það er rangt vegna þess að í samningum á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins er gengið út frá því að Sjúkrahús Reykjavíkur starfi á næsta ári við þau skilyrði sem koma fram í fjárlagafrv., að því gefnu að sjálfsögðu að það gangi eftir sem þar er og þeim var fyllilega ljóst að hverju var gengið þegar samningurinn var gerður. Landspítalinn eða Ríkisspítalarnir fylgdust einnig með þessu starfi og verða að búa við það sama þannig að í raun og veru er staða málsins nú sú að við höfum núna í upphafi þings gert samkomulag um það hvernig þessir hlutir eiga að vera, en höfum því miður stundum áður vaðið dálítið út í óvissuna. Ég rifja það upp fyrir hv. þm. að sl. vor stóð ég í þessum ræðustól og sagði að við værum tilbúnir til að leggja sjúkrahúsunum í Reykjavík meiri fjármuni þá þegar, ef fyrir lægju tillögur um varanlegan sparnað í rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík. Nú liggja þær tillögur fyrir og það er ætlun allra, þar á meðal Reykjavíkurborgar, að fara að þeim tillögum og vinna eftir þeirri áætlun sem liggur fyrir.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig til þess að minnast á það sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni þar sem hann sagði að við værum að bregða upp glansmynd. Það kann vel að vera. Ég býst við að sú mynd sem birtist af ríkisfjármálunum sé meiri glansmynd heldur en oftast áður. En það hefur mjög glöggt komið fram í þessum umræðum í dag að það sem veldur því að okkur tekst að loka ríkissjóði hallalausum er viðskiptahallinn og það er dyggð og nauðsyn þegar þannig stendur á að skila ríkissjóði með afgangi. Í raun og veru --- og þar getur hann ekki sannfært mig né ég hann --- þá skiptir það kannski ekki endanlega mestu máli hvort ástæðan fyrir batanum séu ytri aðstæður eingöngu eða hvort það eru t.d. aðgerðir, bæði gamlar og nýjar, vegna þess að við tókum á fiskveiðimálunum, vegna þess að við tókum á skattamálunum, vegna þess að við lögðum okkur fram um að hafa efnahagslegan stöðugleika o.s.frv. o.s.frv. Sjálfsagt er það blanda af hvoru tveggja og allra síst ætla ég að gera lítið úr ytri aðstæðum. Aðalatriði málsins er að við verðum þegar það stefnir samkvæmt spádómum Þjóðhagsstofnunar í tæplega 15 milljarða viðskiptahalla á næsta ári sem verður skattlagður og mun kannski skila ríkissjóði 3--4 milljörðum, þá ber okkur auðvitað að nota þá fjármuni til að reyna að skila afgangi. Það hljóta allir menn að sjá. Stundum áður hefur það ekki tekist. Á árinu 1991 þegar ég tók við í fjmrn. höfðu verið slík lausatök það árið á ríkisfjármálunum að viðskiptahallinn stefndi á yfir 20 milljarða á verðlagi ársins í ár og ríkissjóðshallinn á sama tíma var um það bil 15 milljarðar þegar búið var að reikna hann upp til verðlags ársins í ár. Það var óstjórn, lausatök, m.a. vegna þess að þáv. hæstv. ráðherra stóð í því alveg fram að kosningum að hafa opið lánsfjárlagafrv. sem var eins og aukafjárlög þannig að öll mál voru í tómri tjöru og vitleysu. Okkur hefur þó tekist að ná tökum á þessum málum þannig að nú þegar viðskiptahallinn er þó umtalsvert minni en á árinu 1991, þá stefnir í að afgangur sé á ríkissjóði og það gerist þrátt fyrir það að vaxtagreiðslur ríkissjóðs séu talsvert hærri en þær voru 1991. (KHG: Er forsetinn erlendis?) Af því að hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, kallar fram í hvort forsetinn sé erlendis og á þá væntanlega við forseta lýðveldisins, þá held ég að svo sé ekki. Mér skilst að hann hafi komið heim í dag. En það er ekki verið að ræða um forseta lýðveldisins hér. Það er verið að ræða um fjármálaráðherratíð þess sem nú gegnir því starfi og hefur ekki með það starf að gera. Það hverfur engin saga við það að menn verði forsetar lýðveldisins. Þeir voru til fyrir þann tíma og ég er ekki að gagnrýna hann. Ég tel að hann hafi reynt af öllum mætti á þeim tíma, árið 1991, að standa af sér allar freistingar. En það hafa verið ýmsir samstarfsaðilar hans, bæði í hans eigin flokki og öðrum flokkum sem hafa legið í honum og reynt að fá fjármuni út úr lánsfjárlögum, fjármuni sem hefðu átt að vera í ... (Gripið fram í: Það hefur verið í Framsfl.) Ég veit ekki í hvorum Framsfl. það var, í Alþb. eða gamla, góða Framsfl. (Gripið fram í: Eða Alþfl.) eða Alþfl. En þetta ástand þarf ég ekki að rifja upp fyrir sumum hv. þm. sem muna þennan tíma mjög vel.

Ég ætla ekki að hætta mér frekar inn á þessar brautir, heldur einungis segja að það getur vel verið, virðulegi forseti, að því sé haldið fram að þetta sé eingöngu ytri aðstæðum að þakka. Vissulega höfum við bent á það í þessum umræðum að þetta sé líka hagstjórn stjórnvalda að þakka. Það er sama hverju er haldið fram. Það er ein niðurstaða. Niðurstaðan er sú, ef frá er talinn hugsanlega einn maður sem ég held þó að styðji þetta, að í umræðunni í dag hafa yfirgnæfandi langflestir tekið undir það meginmarkmið sem við höfum lagt áherslu á og það er að við þessi skilyrði í íslensku efnahagslífi er bráðnauðsynlegt að skila ríkissjóði með tekjuafgangi á næsta ári. Ég þakka fyrir.