Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 13:57:32 (174)

1996-10-09 13:57:32# 121. lþ. 5.2 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[13:57]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil gjarnan koma inn á eitt atriði í frv. sem mér finnst stinga í stúf og það er að engum sé heimilt að annast kaup, sölu eða skipti á fyrirtækjum sem stunda virðisaukaskattskylda starfsemi nema hann hafi til þess löggildingu ráðherra. Nú er það þannig að hlutabréf eru seld á markaði og ef selt er meira en 90% af hlutabréfum í einu fyrirtæki þá er skylda þeirra hluthafa sem eftir standa, þ.e. 10% eða minna en 10%, að selja kaupandanum eða þeim sem á 90% á svipuðu verði þannig að 90% sala á hlutabréfum eða meira er í reynd sama og sala á hlutafélaginu öllu. Ég vil bara benda á þetta og vísa því til nefndarinnar sem um það mun fjalla að skoða hvort þarna sé í rauninni verið að taka út heimild til að selja hlutabréf.

Svo vil ég nefna að það þak sem hefur verið á þóknunum hér á landi, 2%, er það allægsta sem þekkist í nágrannalöndunum --- þetta er víða 3,4% og allt upp í 7% af verði fasteignar --- og hefur gert það að verkum að greinin á ákaflega erfitt uppdráttar, þ.e. fasteignasala. Það er mikið um að fyrirtæki fari á hausinn og verði mjög skammlíf en það kemur aftur niður á þjónustunni við viðskiptavinina, þ.e. þá sem eru að kaupa og selja eignir. Það er því viðbúið að þessi þóknun hækki eitthvað við það að þetta verður gefið frjálst en í staðinn fái menn betri þjónustu.