Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:26:19 (182)

1996-10-09 14:26:19# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:26]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur á óvart sá aðdragandi sem er að gildistöku þessara laga sem á að vera 1. júlí 1997. Rökin sem notuð eru, eru að þeir sem hafa barnaklám í vörslu sinni gefist hæfilegur frestur til að eyða því efni sem fellur undir ákvæði frv. Ég spyr ráðherrann hvort hann óttist ekki að með svona löngum fresti sé ekki líka verið að gefa þeim sem framleiða þetta efni svigrúm, með svona löngum aðdraganda að þessari gildistöku. Ég held að þetta geti virkað í báðar áttir.

Herra forseti. Ég segi það líka að þessi viðmiðun um hvað eru börn finnst mér óeðlileg og hefði talið miklu eðlilegra að miða við ákvæðið eins og það er í lögunum um vernd barna og ungmenna. Og ég vil gjarnan fá svör ráðherra við því að hvort miðað verði við sjálfræðisaldurinn eða skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna sem telja að einstaklingur teljist barn þar til hann er 18 ára. Nú eru uppi hugmyndir um að breyta sjálfræðisaldrinum. Væri ekki eðlilegra að miða við hann? Ég spyr um þetta tvennt.