Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:30:24 (186)

1996-10-09 14:30:24# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek undir þær óskir sem hæstv. dómsmrh. flytur hér að þinginu megi auðnast að samþykkja þetta frv. og gera það að lögum sem allra fyrst. Ég þakka honum líka fyrir að flytja þetta mál aftur í talsvert breyttu formi vegna þess að inntak efnisins er nokkuð breytt þar sem skilgreiningar sem fram koma í grg. með frv. eru talsvert aðrar núna í ár en þær voru með hinu fyrra frv. og allar til bóta. Eitt vil ég þó segja í upphafi, herra forseti. Mér finnst enn og aftur að hæstv. dómsmrh. sé hér að beita plástraaðferðinni sem svo hefur verið kölluð í þessum sölum, þ.e. það er verið að lappa upp á hegningarlög sem eru úrelt að stofni til. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir benti á það í fyrra að þessum lögum hefði verið breytt um það bil 30 sinnum. Þau eru að stofni til síðan 1940 og byggð á dönskum hegningarlagabálki og auðvitað er kominn tími til að stokka þessi lög upp á nýtt.

Og fyrst við erum að ræða það sem kalla má enn einn plástur á þessi lög þá nefni ég það sérstaklega að þegar menn lesa t.d. grg. á bls. 2 þar sem ágætlega er farið yfir gildandi rétt í þessum efnum og verið að ræða þann bálk laganna sem fjallar um kynferðisbrot, þá rekst maður á alls konar hortitti og göt í lögunum. Það kemur t.d. fram að ef um er að ræða framleiðslu á klámmyndum af börnum þá getur það fallið undir 209. gr. ef um er að ræða samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára og það varðar mikilli fangelsisvist. Sömuleiðis er tekið sérstaklega fram ef um er að ræða annað heldur en slíkan verknað sem þarna er nefndur og mundi falla þá undir kynferðislega áreitni fyrir barn á sama aldri, þá getur það líka valdið refsiábyrgð, fangelsisvist til allt að fjögurra ára. En það kemur hins vegar fram að börn sem eru á aldrinum 14--16 ára njóta ekki sambærilegrar verndar. Ef þau eru tæld til samræðis eða kynferðismaka þá er gerandinn búinn að baka sér refsiábyrgð en sá sem hins vegar beitir börn líkamlegu eða andlegu ofbeldi við kynferðisverknað án þess að beinlínis sé um mök að ræða, hann sleppur. Það er ekkert í þessum lögum sem til þessa hefur gert að verkum að slíkt baki mönnum refsiábyrgð. Við bætist síðan það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bendir réttilega á að það er sennilega miklu réttara að hafa sjálfræðisaldurinn þarna inni. Ég tel að það sé engum blöðum um það að fletta. Að minnsta kosti held ég að það verði að vera samræmi í þessum lögum. Er ekki í lögum um vernd barna og ungmenna talað um 16 ár? Það er lágmark. Ég tek þetta sem dæmi um að þarna er líka gat sem hefur verið til staðar mjög lengi og hefði væntanlega þurft enn einn plásturinn úr þessari ágætu plástraverksmiðju sem dómsmrh. hæstv. veitir forstöðu. Ég vil samt sem áður ítreka að ég fagna frv. og tel að þær breytingar sem hér hafa verið gerðar hafi allar verið til bóta.

Menn minnast þess að í fyrra voru skilgreiningarnar mjög furðulegar svo ekki sé meira sagt. Það kom t.d. fram að einungis var refsivert að hafa undir höndum gróft barnaklám og því mátti draga þá ályktun að það væri í lagi að hafa vægt barnaklám undir höndum og það mundi ekki vera líklegt til þess að baka börnum einhvers staðar í heiminum sárindi. Þetta var meira að segja rökstutt með því að það gæti leitt til þess að svokallaðir kynferðislega misþroska menn, sem er hugtak sem er fundið upp í þessari plástraverksmiðju, gætu með því að notfæra slík gögn mögulega ekki fallið í þá freistni að koma fram hneigðum sínum við lifandi veru, við börnin sjálf. Nú þetta er í burtu. Þó eimir enn, herra forseti, eftir af þessum annarlega hugsunarhætti. Það er tekið skýrt fram í grg. á bls. 1 að þeim ágætu mönnum sem semja þetta frv. er ekki fyllilega ljóst, og þeir hafa áhyggjur af því, hvaða áhrif bann af þessu tagi gæti haft eða rannsókn á slíkum brotum gæti haft varðandi uppihald grunnreglna um friðhelgi einkalífs. Ég verð að segja að þetta er röksemdafærsla sem er ekki bjóðandi. Það er ekki hægt að tala um grunnreglur og hvort það sé mögulega verið að ganga á grunnreglur um friðhelgi einkalífs þegar við erum að fjalla um efni eins og barnaklám sem við vitum auðvitað að nærist á því að einhvers staðar úti í heimi og kannski í löndum miklu nær okkur og kannski nær en okkur grunar, er verið að misnota börn til þess að framleiða klámefni.

Herra forseti. Ég vil þess vegna varpa fram spurningu til hæstv. dómsmrh sem varðar einmitt skilgreiningar hæstv. ráðherrans í fyrra. Þá var skýrt tekið fram í grg. að undir þau gögn sem fjallað er um í 1. gr. féllu ekki teikningar af börnum við kynferðisathafnir né heldur myndir sem framleiddar væru í tölvum þar sem að sannanlega væru engar lifandi fyrirmyndir. Við vitum að tölvutækninni hefur fleygt svo fram að hægt er að búa til myndir af hverju sem verkast vill án þess að beinlínis sé um fyrirmyndir að ræða. Ég tek eftir því þegar ég les frv. í gegn að þessi skilgreining er úti. Er þá ekki alveg ljóst, herra forseti, að það sem hæstv. dómsmrh. á við með því að fella þetta brott er að refsivert sé að hafa slík gögn í vörslu sinni, ef frv. verður að lögum?

Svo er annað sem mér finnst merkilegt þegar ég les þetta. Ég veit að hæstv. dómsmrh. fylgist mjög vel með tækninni. Ég veit það vegna þess að ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá frá honum tölvupóst, að vísu á mjög ,,dubious`` formi og sem ég hef þurft fjölda tæknivæddra fyrirtækja til að þýða. Það má vera að það sé þess vegna sem mér finnst sem að hæstv. dómsmrh. sé ekki alveg í takt við tímann þegar hann segir og er að ræða um skilgreininguna á því hvað það er að hafa eitthvað í vörslu sinni. Á bls. 5 segir, með leyfi forseta:

,,Þegar horft er á sjónvarpssendingar (t.d. sem sendar eru gegnum gervihnött) eða myndir sem sóttar eru í gagnabanka en skoðaðar á eigin tölvuskermi teljast myndirnar ekki í vörslu þess sem á þær horfir.`` Ég skil held ég hugsanagang hæstv. dómsmrh. Hann er að reyna að ganga ekki um of á tjáningarfrelsi og tjáskiptafrelsi manna með þessari skilgreiningu. Og hann gerir sér grein fyrir því að það hefur verið mikil umræða um hvað eigi að leyfa og hvað eigi ekki að leyfa á Internetinu. Það eru væntanlega slíkir gagnabankar sem hann er að velta fyrir sér. En við vitum hins vegar að það er einmitt á Internetinu sem þessir gagnabankar eru fyrir hendi, þar sem menn geta farið og sótt sér slíkt efni á tölvuskjá. Og ef þeir eiga tölvuskjáinn er efnið þá ekki í þeirra vörslu? Þegar ég segi að hæstv. dómsmrh. hafi e.t.v. ekki fylgst nægilega vel með tækninni, þá á ég við að það er líka mögulegt með einni hreyfingu á takkaborðinu að festa í minni tölvunnar þessa upplýsingalind og kalla hana fram með hreyfingu eins fingurs. Ég velti því þá fyrir mér, ef slíkt er t.d. gert, erum við þá ekki að framkvæma verknað sem felst í því að sýna eitthvað sem er í okkar vörslu? Ég held það. Ég skil hins vegar að þarna er um að ræða mál sem mundi hafa gríðarlegt fordæmisgildi. En ég held samt sem áður að þessi röksemdafærsla á bak við skilgreiningu hæstv. dómsmrh. standist ekki. Ég vildi gjarnan, af því ég veit að hæstv. dómsmrh. er ekki bara vel máli farinn heldur óvanalega rökfastur af sjálfstæðismanni að vera, fá skilgreiningu hans og hugsun á bak við þetta. Hvers vegna er það svo að hann heldur því fram að efni sem við sækjum í gagnalind og höfum nánast í minni tölvunnar okkar sé ekki í vörslu okkar?

Herra forseti. Ég hygg að erlendis séu menn farnir að setja í lög að það sé saknæmt ef ríkisborgarar tiltekins lands fara til annars lands og fremja þar verknað sem felur í sér misbeitingu gagnvart barni eða ungmenni. Það er hægt að refsa slíkum mönnum og sækja þá til saka þegar til heimalandsins kemur. Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að þetta verði fest í lög á Íslandi. Mun hæstv. dómsmrh. beita sér fyrir því? Ég spyr vegna þess ef hann gerir það ekki þá mun þingflokkur jafnaðarmanna gera það.