Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:39:57 (187)

1996-10-09 14:39:57# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:39]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að gera athugasemd við eitt sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og það er þetta með vörslurnar. Ég held að það sé mjög varasamt að gera kröfu um að allt sem birtist á tölvuskjánum okkar eða sjónvarpsskjánum og er á einhvern hátt varhugavert og kannski á mörkum velsæmis, sé gert refsivert. Ég vil lýsa því strax yfir að ég mótmæli þessari kröfu hv. þm. Ég get nefnt sem dæmi að ég var að gerast áskrifandi að fjölvarpi um daginn. Þar hef ég aðgang að alls kyns sjónvarpsefni, alls konar afþreyingarefni sem kannski margt er svona á mörkum velsæmis. Ég vel úr hvað ég vil horfa á og hvað ekki. En ég er hrædd um að við gætum lent í miklum vandræðum ef við ætlum að gera slíkt efni refsivert og meta það sem svo að það væri að hafa efni í sinni vörslu ef það væri komið á skjáinn hjá manni í tölvunni eða í sjónvarpinu. Þess vegna hafa t.d. Þjóðverjar, sem hafa tekið svolítið á þessum málum með barnaklámið á Internetinu, farið þá leið að loka á stöðvar, loka á þá sem framleiða á slóðir sem eru með svona efni, framleiða svona efni og koma svona efni á framfæri. En ég held að sé mjög varhugavert að það sé gert refsivert að, ég vil segja, saklaus tölvunotandi sem fær svona efni flæðandi yfir skjáinn hjá sér, sé með þetta efni á skjánum hjá sér og meta það sem vörslu.