Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:43:12 (189)

1996-10-09 14:43:12# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:43]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson séum í grundvallaratriðum sammála um mikilvægi þess að vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi af þessu tagi. Og ég held að hæstv. dómsmrh. sé reyndar líka nokkurn veginn á sömu skoðun og við í þeim efnum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að ég byggði mál mitt á tilfinningum en ekki rökum. Ég væni hann þvert á móti um að byggja sínar skoðanir á tilfinningum en ekki rökum vegna þess að mér fannst röksemdafærslan ekki vera mjög sterk hjá hv. þm. Ég byggi mína röksemdafærslu á því hvað felst í hugtakinu ,,vörslur`` Þau ákvæði í hegningarlögunum, sem byggja á hugtakinu ,,vörslur`` --- sem ef ég man rétt ég eyddi þó nokkrum klukkutímum í að lesa um á sínum tíma í lögfræðinni --- eru nokkuð flókin, þ.e. hvað felst í því hugtaki. Ef við förum að fella undir það hugtak efni sem er á tölvuskjánum eða á sjónvarpsskjá þá erum við um leið að takmarka að því er ég tel of mikið tjáningarfrelsið og skoðanafrelsið. Eins og hv. þm. bendir á þarf maður að leita þetta efni uppi. En hversu langt ætlar hv. þm. að ganga? Ætlar hann að gá hvort ég hafi notað leitarvélina á efnið eða ætlar hann að láta refsa mér fyrir það eitt að þetta sé inni á slóð á netinu hjá mér án þess að ég hafi nokkurn tímann notað leitarvélina? Þetta er kannski ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera en ég er sammála hv. þm. í því að það þarf að taka heildstætt á efninu og styð að það sé gert með tilliti til þeirra möguleika sem tæknin býður upp á.