Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 15:18:00 (194)

1996-10-09 15:18:00# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og aðrir ræðumenn fagna ég framlagningu þessa frv. og sérstaklega þeim breytingum sem það hefur tekið frá síðasta þingi. Þær breytingar voru nauðsynlegar ella hefðum við í löggjöf lögfest vægari ákvæði að þessu leyti en til að mynda sumar hinar Norðurlandaþjóðirnar og það hefði tæpast verið við hæfi miðað við alvöru málsins. Einnig er tímabært miðað við þær skuldbindingar og ályktanir sem Íslendingar hafa átt aðild að á undanförnum árum, bæði á evrópskum og norrænum vettvangi, að við komum því í verk ef svo má að orði komast að búa eðlilega um þetta í löggjöf okkar.

Ég læt þá skoðun mína koma fram að þetta sé að sjálfsögðu einungis lítill hluti af því sem gera þarf og gera ber á næstu árum til þess að sporna við hvers kyns misnotkun barna sem þessum efnum tengjast.

Ef aðeins er litið yfir það hvernig staðan er annars staðar á Norðurlöndunum er það svo að þrjár Norðurlandaþjóðanna hafa þegar ákveðið að það skuli vera refsivert athæfi að hafa efni sem tengist barnaklámi undir höndum. Staðan í Svíþjóð er hins vegar dálítið sérstök vegna stjórnskipulegrar stöðu málsins þar og ég tel mig hafa um það upplýsingar að í Finnlandi sé sömuleiðis í undirbúningi að lögfesta sambærileg ákvæði og jafnvel á þessum vetri.

Ég vil láta það koma fram að á vettvangi Norðurlandaráðs hefur þetta mál verið tekið upp, bæði fyrr og nú. Menn kannast við norræna samþykkt eða tilmæli Norðurlandaráðs frá 1994 þar sem því var m.a. beint til norrænu ráðherranefndarinnar að gerðar yrðu nauðsynlegar ráðstafanir til þess að varsla á efni með barnaklámi yrði gerð refsiverð á Norðurlöndunum. Síðan hefur svonefnd Norðurlandanefnd í Norðurlandaráði, svo merkilegt sem það nú er, sem nú starfar samkvæmt nýju skipulagi ráðsins, tekið þetta mál áframhaldandi til meðferðar og á fundi í Ósló fyrir nokkrum vikum var morgunfundur, eða ,,hearing`` eins og það er kallað, þar sem fengnir voru til viðtals við nefndina nokkrir helstu sérfræðingar í þessum efnum á Norðurlöndum og einn er frá alþjóðlegum aðilum sem starfa í baráttunni gegn barnaklámi. Fór þar fremst í flokki Lisbet Palme, ekkja Olofs heitins Palme sem er sérstakur sendiherra, ef svo má að orði komast, á vegum Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði. Einnig komu sérfræðingar frá Interpol, alþjóðalögreglunni, og fleiri aðilum. Satt best að segja er það svo að þar komu fram harla hrikalegar upplýsingar, að mörgu leyti auðvitað þær sömu og lagðar voru fyrir á ráðstefnunni í Stokkhólmi, og það er ljóst að þetta mál að það teygir anga sína víða. Jafnvel eru svæði þar sem um stórkostlega aukningu á framleiðslu barnaklámefnis er að ræða eins og í austanverðri Evrópu. Í kjölfar þess upplausnarástands sem þar hefur skapast hefur þar að því er virðist skapast gróðrarstía fyrir framleiðslu af þessu tagi þar sem jafnvel munaðarlaus börn eru fórnarlömb. Einnig er aukning í ferðamennsku sem tengist klámiðnaðinum, bæði á þeim slóðum og eins í Asíu eins og menn þekkja og það er jafnvel talað um að barnasala, beinlínis mansal á börnum í þágu þessarar starfsemi, fari vaxandi á mörgum svæðum í heiminum, til að mynda frá smáríkjunum við rætur Himalajafjalla.

Ég hvet því til þess að tekið verði á málinu, raunar í víðtækasta skilningi, og að við lítum svo á að hér sé aðeins um að ræða einn þátt af mörgum sem sinna þarf í þessum efnum. Þótt það sé að sjálfsögðu framfaraskref og löngu tímabært að taka alveg af skarið um að varsla efnis af þessu tagi sé refsiverð held ég að í raun og veru mundi engin önnur skilgreining halda eða skipta neinu umtalsverðu máli en sú að láta sjálfa vörsluna án tillits til þess hver er framleiðandinn, hvernig hún er komin í hendur viðkomandi og án tillits til þess hvort það sannist að efnið sem slíkt sýni kynferðisafbrot vera refsiverða. Ella mundu menn fljótt reka sig á það að ákvæðin yrðu haldlítil og það er akkúrat ástæða þess að sú leið hefur verið valin í þeim í löndum kringum okkur, þar sem menn vilja taka fast á þessu skelfilega vandamáli, að hafa þetta svona. Ég hygg að norska löggjöfin sé sú sem gengur lengst og er þarna afdráttarlausust og ég vil gjarnan sjá að við Íslendingar skipum okkur í flokk með þeim.