Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 15:23:49 (195)

1996-10-09 15:23:49# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:23]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem upp af því tilefni að ég var á þingi Evrópuráðsins fyrir einum 10 dögum þar sem um þetta efni var fjallað. Af því tilefni vil ég fyrst og fremst þakka ráðherra fyrir framlagningu þessa frv. sem gengur lengra en mörg önnur lög í Evrópulöndum. Þetta mál kom til í Evrópuráðinu vegna þeirra hryllilegu atburða sem átt hafa sér stað ekki bara í Belgíu heldur í Englandi og annarra atburða sem hafa verið að koma upp á yfirborðið á undanförnum árum því eins og ég vil halda fram eru þessi mál að koma upp á yfirborðið. Þetta er ekki eitthvað nýtt. Þetta eru hlutir sem hafa gerst um langa hríð og fólk er nú fyrst farið að sjá hvað þessi misnotkun barna er víðtæk.

Í haust var lögð fram beiðni um að þingið fjallaði um misnotkun á börnum og talað um að það væri kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, það væru meiðsli eða nauðganir á börnum, það væri kynferðisleg misnotkun barna, það væri vændi og barnaklám. Í kjölfar þessa kom fram beiðni um það að þingið legði fram meðmæli í greinargerð um þessa þætti og minnst var á margnefnda ráðstefnu í Stokkhólmi og hvers konar þætti skyldi skoða. Þar var rætt sérstaklega um að fjölskyldumál yrði ávallt að skoða sérstaklega og það mætti ekki loka ummælum um fjölskyldumál í umræðunni því að innan fjölskyldunnar væru oft flest afbrotin framin.

Síðan var talað um aldurinn, hvaða aldur ætti að vera settur við refsingu á svona afbrotum og talað var um 20 ár. Þá var rætt um hvað væri lágmarksaldur, þ.e. hvað teldist til barna og þar var áfram rætt um 15 ár en á móti var það ákvæði fellt niður. Ástæða þess var sú að þarna var fjöldi þingmanna sem taldi að í ákveðnum löndum væri samband þessara aldurshópa 20 ára og kannski 15 ára það þróað af menningarlegum ástæðum að ekki bæri að refsa fólki á þessu aldursbili.

Áfram var rætt um þessi mál frekar í heild sinni og mönnum var ljóst að barnaklám og misnotkun barna er engan veginn bundið við það sem upp á yfirborðið hefur komið þó að tilefni þessarar umræðu og svona umræða sé oft það að mál komast í fjölmiðla. Ég vil gjarnan vísa í herra Kallas sem er formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins en ég er honum hjartanlega sammála þar sem hann sagði að þessi mál og það sem upp hefði komið á undanförnum árum væri einungis toppurinn á ísjakanum og það væri öruggt mál að barnaklám væri hluti af skipulegri glæpastarfsemi. Þess vegna væri nauðsynlegt að þjóðþing væru nægilega vakandi til þess að vinna að stefnu sem gæti stöðvað svona hræðilega hegðan. Ástandið væri orðið þannig að þjóðfélög í dag væru full ótta vegna barna sinna og nú væri svo komið á sumum svæðum að börnum væri hreinlega ekki hleypt út vegna hættu á því að þeim yrði stolið og þau yrðu misnotuð eða jafnvel drepin. Þarna var talið upp á þinginu að taka yrði inn í myndina ekki bara eina tegund manngerðar, heldur væru þarna ekki bara skipulagðir glæpir, þarna væru sadistar og alls konar öfuguggar sem ynnu að þessum málum og þessir glæpamenn sem stæðu að skipulögðum glæpum fylgdust með þessum afbrigðilegu karakterum og notuðu þá til að sinna sínum viðskiptum. Það sem ef til vill er hættulegast í Evrópu og öðrum heimsálfum er að mikið er um barnaflutning, þ.e. börnum er stolið og síðan eru þau flutt um langan veg þar sem þau eru misnotuð, annaðhvort sett í barnavændi eða notuð í klámiðnaði.

[15:30]

Ég tel bráðnauðsynlegt að við þróun okkar löggjafar í þessum efnum fylgjum við þeim stöðlum og reglum sem Evrópuráðið og aðrar alþjóðlegar mannréttindastofnanir setja til að við getum tekið þátt í þeirri samvinnu sem vonandi á að fara fram. Nú er verið að vinna að skýrslu um þessi mál og mér skilst að henni eigi að vera lokið fyrir janúarlok á næsta ári. Það er því mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með því hvernig skýrslan þróast og hvað við getum gert meira til að bæta okkar löggjöf sem ég þó tel vera harla góða miðað við það sem vísað var til í umræðu um þessi mál í Strassborg.

Mig langar aðeins að fara inn á þá umræðu sem fór fram áðan. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur þegar hún talaði um að vernda heimilislíf svo mikið að ekki sé hægt að takast á við kynferðislega misnotkun á börnum almennt. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið þetta rétt. En ég tel að það megi ekki vernda heimilislífið það mikið að ekki sé hægt að ganga inn á heimili þar sem börn eru misnotuð. Ég býst frekar við að ég hafi misskilið þetta heldur en að ég geti túlkað þetta svona.

Hvað snertir vörslu ljósmynda, kvikmynda eða sambærilegra hluta og þau ummæli sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafði um þau mál, þ.e. orðalagið í 1. gr. frv. um það að hver sem hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða aðra sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt skuli sæta sektum, þá tel ég að ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilegir hlutir sem eru í vörslu fólks geti vel átt við tölvur, útprentanir úr tölvum og annað slíkt, jafnvel það að nýta sér sjónvarpsrásir með slíku efni.

Að öðru leyti vil ég hvetja allshn. til að afgreiða þetta frv. fljótt og vel, gera nauðsynlegar breytingar sem hún telur þurfa á frv. sem ég að flestu leyti tel mikið til fyrirmyndar. En ég tel að það sé ákaflega mikilvægt, jafnvel þó við séum fámenn þjóð í litlu landi, að taka þátt í samstarfi þeirra þjóða sem ætla sér að taka á þessum málum því enginn veit hver verður næstur.