Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 15:34:28 (196)

1996-10-09 15:34:28# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:34]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur, vil ég útskýra það sem ég varaði við. Eins og komið hefur fram í umræðunni eru einkum tvenns konar rök notuð gegn ákvæðum af þessu tagi. Það eru annars vegar rök um friðhelgi einkalífsins og hins vegar rök um að þetta hefti prentfrelsi eða tjáningarfrelsi. Þar sem í grg. er enn þá skírskotun til friðhelgis einkalífsins, þ.e. þessi setning, þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Á móti framangreindum rökum kemur að ekki er fyllilega ljóst hvaða áhrif slíkt bann kemur til með að hafa í reynd og að rannsókn á slíkum brotum getur gengið nærri grunnreglum um friðhelgi einkalífs.``

Ég vil vara við því, þó að friðhelgi einkalífsins sé stjórnarskrárbundin eins og kom fram hér áðan, þá verður að vera tryggt að undir kringumstæðum sem þessum og þegar almennt heimilisofbeldi er annars vegar, þá verði mögulegt að rannsaka meint brot.