Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 15:45:00 (200)

1996-10-09 15:45:00# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið. Mér þótti það hins vegar mjög miður að hæstv. dómsmrh. skyldi taka þessa umræðu niður á stig aulafyndninnar og reyna að gera mér upp skoðanir sem ég fór aldrei með.

Það er þannig að frv., herra forseti, lýtur að því að gera það óheimilt samkvæmt lögum að hafa í vörslu sinni barnaklám. Ég einfaldlega tel að það sé í andstöðu við hefðbundinn málskilning manna að líta svo á að þegar sóttar eru t.d. myndir í gagnabanka og þær eru skoðaðar og hafðar á eigin tölvuskermi, þá séu þær ekki í vörslu þess sem er að skoða þær. Ég tel einfaldlega að það sé í andstöðu við þann skilning sem a.m.k. ég legg í þetta orð. Ég held líka að það sé nauðsynlegt að við hugsum málið alveg til enda. Ef mönnum er boðið upp á slíkt þá er um leið verið að efla jarðveg fyrir framleiðslu á barnaklámi og þá er um leið verið að ýta undir það að einvers staðar úti í heimi sé litlum börnum misboðið. Það er einfaldlega það sem við þurfum líka að taka inn í þessa mynd.