Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 10:49:41 (206)

1996-10-10 10:49:41# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:49]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. kom m.a. fram eftirfarandi sem ég vildi mjög gjarnan fá frekari skýringar við:

,,Eitt helsta vandkvæði við umræðu um veiðileyfagjald er að flestir forsvarsmenn sjávarútvegsins og ýmsir stjórnmálamenn átta sig ekki á að álagning veiðileyfagjalds styrkir sjávarútveg til lengri tíma, ekki síst ímynd hans.

Þannig skapast svigrúm til að haga gengisskráningunni þannig að aðrar atvinnugreinar verði öflugar við hlið sjávarútvegs.

Þannig helst fiskveiðiarðurinn að hluta til innan sjávarútvegsins.

Þannig yfirtekur sjávarútvegurinn ýmis þjónustuverkefni ríkisvaldsins með kostnaðarþátttöku. Ef veiðileyfagjald er ekki tekið upp mun skapast mikil þensla innan sjávarútvegs við gott stjórnkerfi og vaxandi fiskveiðiarð, m.a. í formi hærri launa sjómanna vegna hlutaskiptakerfisins. Þetta ójafnvægi í efnahagsmálum mun leiða til þess að þrýstingur á raungengið eykst og það hækkar sem svarar til gengishækkunar eða minni gengislækkunar en nauðsynlegt er við mikla verðbólgu eins og við þekkjum vel.``

Ég vildi gjarnan fá þetta frekar útfært af hálfu 1. flm.