Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 10:51:22 (207)

1996-10-10 10:51:22# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:51]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson las upp úr greinargerðinni og nokkra þætti úr framsögu minni og óskaði eftir aðeins nánari skýringu við þá. Það er skoðun okkar flutningsmanna að til lengri tíma styrki þessi aðgerð íslenskan sjávarútveg. Þegar hér er rætt um að veiðileyfagjald styrki ekki hvað síst ímynd hans, þá er með því m.a. átt við þessi réttlætissjónarmið sem við höfum dregið mjög skýrt fram. Það er orðin er mikil ósátt um og hefur verið mikil ósátt um í íslensku þjóðfélagi, að veiðiheimildum skuli vera úthlutað án gjaldtöku þannig að menn geti hagnast á sölu og leigu veiðiheimilda án þess að greiða nokkuð til eigandans. Þetta er að skaða íslenskan sjávarútveg að okkar mati.

Við bendum á að það er hægt að beita þeirri aðferð, sem er lýst nánar einnig í greinargerðinni, að leggja á veiðileyfagjald, láta gengið á einhvern hátt síga til að mæta þeim kostnaðarauka sem sjávarútvegurinn verður fyrir sem hefur þær afleiðingar að annar útflutnings- og samkeppnisiðnaður styrkist við hlið sjávarútvegsins þannig að raunverulega þarf þetta ekki að leiða til útgjaldaauka fyrir sjávarútveginn.

Við erum alltaf að tala um það í þessari umræðu að það er að skapast mikill arður í íslenskum sjávarútvegi. Veiðistofnarnir og fiskimiðin eru geysilega verðmæt. Við höfum verið að stýra þessu með markvissum hætti sl. 15 ár. Og eitt skýrasta dæmið eru einmitt þau öru viðskipti og það háa kvótaverð sem er í gangi í sjávarútveginum. Það segir okkur að fiskveiðiarðurinn mun á einhvern hátt koma fram í kerfinu. Hann getur komið fram í háu kvótaverði, hann getur líka komið fram í hærri launum þeirra sem taka þátt í sjávarútvegi, hvort sem það eru sjómenn eða aðrir. Það hefur hins vegar áhrif á launaþróun annars staðar í þjóðfélaginu og knýr í þann farveg sem við þekkjum mætavel. Það er þessi atburðarás sem við erum að koma í veg fyrir með veiðileyfagjaldinu að verði hér alls ráðandi með gömlum úrræðum.