Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 10:57:48 (210)

1996-10-10 10:57:48# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:57]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt sem er mjög athyglisvert í þessari tillögu og er frábrugðið því sem var í málflutningi þingmannsins frá síðasta vetri og það er að nú snýr hann meginröksemdunum við. Þá voru rökin þau að það þyrfti að leggja á veiðileyfagjald til þess að tryggja að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar. Núna segir hann í greinargerð, með leyfi forseta: ,,Gundvöllur veiðileyfagjalds er sú staðeynd að fiskstofnarnir kringum landið eru eign allrar þjóðarinnar`` eða með öðrum orðum að eignarrétturinn er ótvíræður sem gefur honum tilefni til að leggja þessa tillögu fram.

Ég vil þakka honum fyrir þessa framför í málflutningi og hlakka til að sjá hvernig tillagan lítur út á næsta ári þegar hann verður enn búinn að læra meira af okkur hinum sem teljum okkur skynsamari í þessum efnum.

En ég vildi fá að beina nokkrum fyrirspurnum til þingmannsins og vildi gjarnan að hann svaraði þeim núna áður en umræðan fer í gang og þær eru eftirfarandi:

Í ljósi fullyrðingar hans um að fiskveiðiarðurinn sem hann hyggst taka út úr sjávarútveginum eða út úr útgerðinni eru 15--30 milljarðar af atvinnugrein sem hefur 60 milljarða í tekjur, þá spyr ég hv. þm.:

1. Hvernig verður útgerðarmunstrið í þessu framtíðarríki? Hvernig verður sókninni hagað? Hvernig verður vinnslunni hagað? Hefur verið reiknað inn í kostnaðinn til að draga frá arðinum kostnað við breytingarnar á þjóðfélaginu sem hljótast af þessari framtíðarsýn þingmannsins?

2. Hvað telur þingmaðurinn að fella þurfi gengið mikið til þess að atvinnugrein sem hefur 60 milljarða í tekjur geti greitt 30 milljarða í skatt?