Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:15:44 (215)

1996-10-10 11:15:44# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:15]

Svanfríður Jónasdóttir: (andsvar)

Herra forseti. Í inngangi að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og er til umræðu er tekið skýrt fram að hér er verið að tala um veiðileyfagjald, það er ekki verið að tala um fiskveiðistjórnunarkerfi. En af því að hv. þm. gat þess að flokkur hans, Alþb., væri á móti leigubraskinu, vilji ekki leigja, bara selja, er eiginlega nauðsynlegt að benda á að ef menn vilja ekki leigja, bara selja, þá er auðvitað hægt að gera það líka innan ársins. Því má segja að svo lengi sem einn flokkur styður aflamarkskerfi þannig að selja má þá hlutdeild sem mönnum hefur verið úthlutuð í auðlindinni, þá geta menn braskað því það er enginn vandi að selja innan ársins, selja og kaupa. Þetta er því ekki lausn, a.m.k. ekki frambærileg lausn. Og af því að hér er verið að tala um að það að leggja ofan á gildandi kerfi sé ekki til bóta, þá er ekki verið að tala um það í þessari tillögu. Það er ekki verið að tala um að leggja veiðaleyfagjald ofan á óbreytt kerfi. Hins vegar hafa hagfræðingar ítrekað bent á það að kvótakerfi með veiðileyfagjaldi sé ekki bara heppilegra, ekki bara réttlátara og ekki bara sveigjanlegra, heldur að öllu leyti mun betra fyrirkomulag en kvótakerfi án veiðileyfagjalds, þannig að ef Alþingi tekur þá ákvörðun að viðhalda því kerfi sem nú er, þá er það þó heppilegra og réttlátara með veiðileyfagjaldi. En ég vil undirstrika að í þessari tillögu er ekki verið að taka afstöðu til þeirrar aðferðar sem ákvörðuð er við veiðarnar. Við búum hins vegar við þá staðeynd að Alþingi hefur ákveðið tiltekna fiskveiðistjórnun.