Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:31:06 (220)

1996-10-10 11:31:06# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:31]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef samúð með því sjónarmiði hæstv. utanrrh. að vekja athygli á þeim umskiptum sem orðið hafa í afkomu í sjávarútvegi. Ég man eins og hann vel umræðuna um skuldsetningu sjávarútvegsins og það vonleysi sem ríkti þegar menn litu þar til framtíðar. Ég skil þess vegna mætavel þá sem hafa verið talsmenn núverandi kvótakerfis, þ.e. aflahlutdeildarkerfis með framsali, og vil ég nú nota tækifærið og vekja athygli manna á því að það hafa orðið umskipti. Með öðrum orðum, rök þeirra um að kvótakerfi með framsali, sem var erfitt pólitískt mál, hafi þrátt fyrir allt skilað umtalsverðum árangri og náð að hluta til þeim markmiðum að auka mjög hagkvæmni í greininni. Hvernig? Með því að ríkisvaldið tók þá ákvörðun að skammta aðganginn að auðlindinni og með því að úthluta þeim hópi útgerðarmanna sem höfðu áður fest sig þar í sessi veiðiheimildunum ókeypis.

Ég tek undir þau rök vegna þess að það eru staðreyndir að þessi aðferð hefur að hluta til aukið hagkvæmni og arðsemi í sjávarútveginum og verði henni haldið til streitu mun hún gera það í stórum stíl til viðbótar. Með öðrum orðum, arðsemi í sjávarútvegi mun fara vaxandi.

Ef þetta er svo, þá er spurningin þessi og ég beini henni til hæstv. utanrrh.: Er hann þeirrar skoðunar að það sé af einhverjum ástæðum, siðferðilegum, réttlætislegum eða hagfræðilegum, rangt að tekið verði gjald fyrir afnotaréttinn að þessari auðlind, sem ríkisvaldið úthlutar tiltölulega fáum aðilum, og það verði í fyrstu notað til þess að standa undir kostnaði þjóðarbúsins við sjávarútveginn eða það renni með einum eða öðrum hætti í þágu almannahags?