Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:35:51 (222)

1996-10-10 11:35:51# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:35]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það síðastnefnda er um það að segja þegar menn eru að taka dæmi af hámarksarði í sjávarútvegi miðað við endurreisn fiskstofna og hagstæðustu skilyrði að það er einfaldlega niðurstaða vísindamanna sem um það hafa fjallað. Flutningsmenn tillögunnar eru ekki að gefa neitt í skyn. Þeir eru bara að leggja á borðið staðreyndir um það hvernig vísindamenn hafa metið þetta. En ég vek athygli þingheims á svörum hæstv. utanrrh. vegna þess að spurningin var um það hvort grundvallarágreiningur væri um að réttmætt væri að þjóðin fengi hlutdeild í þessum arði ef hann er fyrir hendi. Svar hæstv. utanrrh. var að hann vildi alls ekki útiloka að sá dagur kæmi. Hann taldi það bara ekki tímabært. Með öðrum orðum, við erum ekki lengur að ræða um einhvern grundvallarágreining, það er ekki verið að vísa á bug þeim rökum og þeim sjónarmiðum, þeirri hugmyndafræði sem hér er verið að boða. Það er verið að segja: Það er ekki tímabært að svo stöddu, það gæti komið seinna.

Hæstv. ráðherra sagði: Ég tel að það væri æskilegt að allir nytu góðs af. Já, við teljum það. En sannleikurinn er sá að veiðileyfagjald er þegar tekið í þessu þjóðfélagi. Hver sá sem vill fá að öðlast réttindi, veiðiheimildir, í núverandi kerfi verður að borga fyrir þann rétt. Menn verða að kaupa sig inn í kerfið. Hvað þýðir það, hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherrar, gagnvart samkeppnisskilyrðum? Það þýðir að þeir sem þurfa að kaupa sig inn í kerfið og borga hinum sem fengu ókeypis sitja ekki við sama borð, þeir búa við allt önnur og óhagstæðari skilyrði. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson ætti að hugsa til þess þegar hann hugsar til heimabyggðar minnar, Vestfjarða, þar sem sjávarútvegurinn býr við miklu verri skilyrði að það eru skilaboð stjórnvalda til sameinaða fyrirtækisins á Vestfjörðum að ætli þeir sér að rétta hlut sinn verða þeir að kaupa það dýru verði og borga þeim sem fyrir hafa heimildirnar og búa þannig við og sætta sig við ranglátari og óréttlátari samkeppnisskilyrði.