Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:38:49 (223)

1996-10-10 11:38:49# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki frambærilegur málflutningur, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Þegar kvótakerfið var tekið upp fengu þeir úthlutað þeim rétti sem höfðu þann rétt á þeim tíma, þar á meðal Vestfirðingar. Átti að taka þann rétt af þeim áður en kvótakerfið var búið til? Þeir höfðu hefðarrétt í þessu sambandi, höfðu stundað þessar veiðar og það var grundvallaratriði að þeir sem höfðu stundað veiðarnar, útvegsmenn og sjómenn, héldu áfram að hafa þennan rétt vegna þess að réttur til veiða hefur alltaf fylgt hverju einasta fiskiskipi á Íslandi. Fiskiskip sem hefur engan rétt er einskis virði. Það sem veldur nokkrum ágreiningi er að það var skilið þarna á milli. Það var skilið á milli og veiðirétturinn varð framseljanlegur. En það er enginn vafi á því að það að veiðirétturinn var gerður framseljanlegur er grundvöllurinn fyrir þeirri miklu hagræðingu sem hefur átt sér stað í greininni. Ef það hefði ekki verið gert væri sjávarútvegurinn ekki í þeirri stöðu sem hann er í dag. Það er hins vegar rétt að ýmsir aðilar í sjávarútveginum hafa haft nokkurn hagnað af. Það er eðli allra hagkerfa að einhver hafi hagnað og einhver græði nema menn vilji taka upp sósíalískt kerfi og reka þetta allt saman í einni allsherjarbæjarútgerð.

Ég get út af fyrir sig ekki séð neina aðra lausn ef menn vilja tryggja algert jafnræði og réttlæti í málinu en að taka upp þá hugmyndafræði sem hv. þm. aðhylltist einu sinni í þessum efnum og vona ég að hann fari ekki að predika hana á nýjaleik á fullorðinsaldri.