Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:51:29 (226)

1996-10-10 11:51:29# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:51]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrri spurningin var hvernig stæði á því að þó að sameignarákvæðið væri lögbundið þá væri reyndin önnur. Kerfið sem notað er heitir á ensku individual transferable quotas, sem sagt þetta er til einstaklinga og þetta eru framseljanlegar heimildir og það stefnir allt í það eins og það er og ég hugsa að hafi verið upphaflegt markmið, að einstaklingarnir eigi þetta. Það er eiginlega innbyggt í kerfið og hagfræðingar segja það og það kemur fram meira að segja í tillögunni. Hins vegar höfum við lög frá 1990 um sameignarákvæði og þjóðin byggir afkomu sína 80% á auðlindinni. Og núna sýnir þessi umræða um veðsetningu á aflaheimildum vandamálið í hnotskurn. Það hafa verið blaðaskrif í sumar. Gylfi Þ. Gíslason og fleiri takast á. Er þetta einkaeign eða sameign? Við vitum það vel. Spurningin er hvort sjónarmiðið verður ofan á alveg á næstunni.

Hitt atriðið var þversögnin á milli sameignarákvæðisins og þess að þessu sé úthlutað til einstaklinga. Þetta er í raun og veru angi af sömu spurningunni. Þarna er um takmörkuð gæði að ræða og þeim er úthlutað og viðkomandi er leyfilegt að koma þeim í verð. Eins og allir vita eru til aðilar sem árlega fá úthlutað kvóta og bara selja hann og græða peninga. Það þyrfti að skylda aðila sem fá þennan kvóta til að nýta hann eða skila honum aftur. Fyrirkomulagið er miðað við einhverja sögulega staðreynd frá 1984. Þetta er alveg komið úr tengslum við þá sem núna eru að byggja upp og vinna í þessu landi, þannig að þetta er algjör þversögn.