Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:53:42 (227)

1996-10-10 11:53:42# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:53]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir var áðan í raun og veru að segja að þeir sem fái úthlutað kvóta eigi að nota hann. Ég er alveg hjartanlegta sammála þessu. Menn eru að nota kerfið til að stjórna veiðum og veita mönnum réttindi til að veiða og þá eiga menn að veiða en ekki að versla. Það er einmitt kjarninn í afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna. Menn eiga að veiða en menn eiga ekki versla.

Ég vil segja vegna fyrra atriðisins sem ég spurði um ... (JBH: Sem þeir mega selja ...) Nei, við leggjum til að framsal á leigukvóta verði bannað. (JBH: Já, en ...) Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson leggur til að menn megi bæði leigja og selja það sem þeir eiga ekki. (JBH: Nei.) Hann verður að rökstyðja það sjónarmið sitt í ræðutíma sínum en ekki þegar ég er að veita andsvar við ræðu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur.

Það eru dómstólar sem skera úr um gildi laga. Hv. þm. gat ekki nefnt dæmi um nokkurn þann dóm sem gengið hefur sem hnekkir sameignarákvæði laganna og ég veit heldur ekki um slíkan dóm. Ég vara við því að þingmenn sem sitja hér setji fram þá túlkun að þetta ákvæði laganna sérstaklega haldi ekki lengur. Með því eru þeir öðrum fremur að grafa undan gildi laganna og vísa til dómstóla þeirri túlkun sem þeir segjast vera á móti. Ég vara því alveg sérstaklega við þessum málflutningi nema menn hafi haldföst rök byggð á niðurstöðum dómstóla.