Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 12:18:26 (231)

1996-10-10 12:18:26# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[12:18]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. sjútvrh. gat um í ræðu sinni voru allmiklar umræður um þetta mál á síðasta þingi. Þá flutti ég m.a. nokkuð langa ræðu um afstöðu mína til málsins sem nú er flutt næsta lítið breytt. Það þarf ekki að lengja umræður hér með því að endurtaka það sem þá var sagt.

Ég vil þó aðeins minnast á nokkur atriði í sambandi við umhverfi þessa máls. Í fyrsta lagi það að hæstv. ráðherra hefur sagt, og það oft, að ástæðan fyrir því að frv. þetta sé flutt sé að úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna kalli á slíka lagasetningu. Þetta var ekki rétt fyrir ári síðan og þetta er heldur ekki rétt í dag því það frv. til laga sem hér er flutt er miklu víðtækara en úthafsveiðisáttmálinn gerir ráð fyrir. Raunar var hann túlkaður af hæstv. ráðherra og starfsmönnum hans í fyrra frv. til hins ýtrasta í þá veru að veita ráðherra heimildir til stjórnunar á fiskveiðum. Meira að segja þar sem í sáttmálanum sagði að ráðherra gæti gripið til tiltekinna ráðstafana ef sáttmálinn væri kominn í gildi, það var flutt yfir í frumvarpstextann þannig að ráðherra væri skylt að grípa til þeirra stjórnunarráðstafana sem þar var fjallað um og er það eitt dæmið af mörgum um oftúlkun sjútvrn. á efni úthafsveiðisáttmálans.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra í tilefni af því að hann endurflytur nú mál sitt, hversu margar þjóðir það eru sem nú hafa staðfest úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna. Getur hann getið sér til um hvenær sá sáttmáli gæti hugsanlega öðlast gildi sem alþjóðalög?

Í öðru lagi lætur hæstv. ráðherra í það skína að þetta frv. sé niðurstaða af farsælu starfi sérstakrar nefndar sem hann skipaði á sínum tíma til þess að skoða fiskveiði utan lögsögu Íslands. Það er ekki heldur rétt vegna þess að í þeirri nefnd var ágreiningur um nærfellt öll efnisatriði málsins. Meira að segja eins og kom fram í greinargerð frá þingflokki Alþfl., sem hv. þáv. þingflokksformaður, Rannveig Guðmundsdóttir, lagði fram á fundum nefndarinnar, þá var af hálfu Alþfl. ekki bara ágreiningur um einstök efnisatriði í þeim drögum sem þar voru til umræðu heldur var þingflokkur Alþfl. einnig þeirrar skoðunar að það þyrfti ekki að setja að svo stöddu neina nýja löggjöf um fiskveiðar utan lögsögu Íslands heldur væri nægilegt að styðjast við þau lög sem þá voru og enn eru í gildi, a.m.k. þar til ljóst væri að úthafsveiðisáttmálinn öðlaðist gildi sem alþjóðalög og ljóst væri hvernig a.m.k. helstu nágrannaþjóðir okkar Íslendinga og helstu fiskveiðiþjóðir heims ætluðu sér að standa að framkvæmd hans. Það hefur ekkert breyst í þessu efni.

Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni nýjungar í frv. þar á meðal nýjungar sem er að finna í síðustu málsgrein 4. gr. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því sem þar kemur fram. Þar segir m.a.:

,,Ráðherra getur sett sérstakar reglur um stjórn veiða íslenskra skipa í þeim tilvikum sem Ísland hefur nýtt rétt sinn til að mótmæla samþykktum um fiskveiðistjórn, ... Getur hann í því skyni bundið veiðarnar sérstökum leyfum ... Binda má leyfin nauðsynlegum skilyrðum.``

Hvað þýðir nú þetta allt saman? Þetta er hægt að orða einfaldlega svo í einni setningu: Sjútvrh. skal stjórna öllum veiðum íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelginnar. Með orðalaginu eins og það er sett fram í síðasta málslið 4. gr. eru hæstv. ráðherra bókstaflega gefnar heimildir til þess að gera í því tilviki sem þar um ræðir það sem honum dettur í hug. Hann getur ekki aðeins bundið þær veiðar sem þar um ræðir sérstökum leyfum eins og tekið er þar fram heldur megi einnig binda leyfin eins og þar er sagt, með leyfi forseta, ,,nauðsynlegum skilyrðum``. Það er að sjálfsögðu sjútvrh. sem á að meta það í öllum tilvikum hvað hann telji vera nauðsynleg skilyrði og hvernig hann telji að sérstök leyfi eigi að veita. Þetta er eitt mesta miðstýringarfrv. sem ég hef séð og hef ég nú séð þau mörg með miklum miðstýringartilhneigingum hjá þessari frjálslyndu ríkisstjórn.

Við skulum gera okkur grein fyrir að hér er ekkert smámál á ferð sem hægt er að afgreiða á einni eða tveimur vikum því að þær fiskveiðar sem hér er verið að ræða um í frv., úthafsveiðarnar, hafa beinlínis skapað þann efnahagsbata sem menn hafa hrósað sér af og rætt um að væri forsenda fyrir því að Íslendingar gætu litið bjartari augum fram á veginn en þeir hafa getað gert um árabil. Meginhlutinn af þeirri efnahaglegu sókn sem orðið hefur í íslenskum þjóðarbúskap stafar einmitt af veiðum úthafsveiðiflotans sem á örfáum árum hefur slitið barnsskónum og stendur nú undir afkomu u.þ.b. 15.000 Íslendinga ef reiknað er með bæði fjölskyldum þeirra sjómanna sem stunda fiskveiðar um borð í þessum skipum, sem eru orðin 50 talsins, það eru 50 fiskiskip sem stunda úthafsveiðar frá Íslandi, og ef litið er til fjölskyldna þeirra fiskverkunarmanna í landi sem vinna við aflann sem þessi skip skila. Þetta er því ekki lengur neinn smáútvegur sem við erum að tala um hér. Hér er um að ræða volduga úthafsútgerð sem stendur undir afkomu 15.000 Íslendinga og skilar mörgum þeirra mjög góðri afkomu og ber öðrum fremur að færa þakkirnar fyrir þann efnahagsbata sem orðið hefur á Íslandi á umliðnum þremur árum eða svo. Þarna er verið að leggja til að hæstv. sjútvrh. verði fengi það vald, sem hann að vísu ekki hefur í dag, að geta meira og minna sett fótinn fyrir veiðar þessa flota. Hver er sú nauð sem rekur til þess að það verði gert þegar úthafsveiðisáttmálinn ekki krefst þess, þegar aðstæður ekki krefjast þess, þegar almenna reglan er sú að fiskveiðar séu frjálsar í úthafinu og þegar íslenski sjútvrh. hefur þar að auki í sínum höndum alla möguleika til að stjórna veiðum íslenskra fiskiskipa á hafsvæðum sem Ísland er aðili að fiskveiðistjórnun á í samvinnu við önnur ríki?

Í þessu sambandi hefur sérstaklega verið rætt um veiðarnar sem stundaðar hafa verið á Flæmska hattinum og látið að því liggja að þar stunduðu Íslendingar stórfellda rányrkju sem yrði að stöðva. Ég vil vekja athygli á því í því sambandi að það hafa ákaflega litlar rannsóknir farið fram á afkastagetu rækjustofnsins á þessu hafsvæði. Hafrannsóknastofnun hefur ekki stundað þar umtalsverðar rannsóknir og Kanadamenn hafa ekki gert það heldur enda eru þeirra skip lítið að veiðum á þessum slóðum. Það er aðeins einn fiskifræðingur sem hefur stundað umtalsverðar rannsóknir á Flæmska hattinum, það er Jón Kristjánsson, sem var þar um nokkuð langa hríð á því ári sem nú er að líða. Hann ritaði í sumar grein í Morgunblaðið um niðurstöður rannsókna sinna. Þar kemst hann að raun um það og fullyrðir og færir að því rök að það séu engin merki þess að þar eigi sér stað ofveiði eða að ástandið sé neitt í líkingu við það sem hefur verið látið í veðri vaka. Mér er mætavel kunnugt um að Hafrannsóknastofnun hefur ekki yfir betri upplýsingum að ráða um veiðiþolið á þessum slóðum en svo að hún óskaði sérstaklega eftir því við Jón Kristjánsson að hann léti henni í té þau gögn sem hann byggði sínar rannsóknir á. Mér er hins vegar ekki kunnugt um hvort hann hefur gert það eða ekki. En hans niðurstaða er sú, þess íslenska fiskifræðings sem mest hefur unnið að rannsóknum á þessum slóðum, að það sé ekkert sem bendi til þess að þar sé um ofveiði að ræða eins og fullyrt hefur verið.

Meðal annars hefur verið bent á að þarna sé um að ræða gífurlega stórt hafsvæði eða 25.000 ferkílómetra svæði. Þar er verið að veiða á ferkílómetra um 2 tonn eins og veiðin hefur verið að undanförnu. Til samanburðar má geta þess að veiðin á ferkílómetra í Arnarfirðinum t.d. er um 10 tonn. Og bara til að vekja fólk til umhugsunar um fullyrðingar, sem kannski eru hæpnar, þá vil ég minna á að árið 1986 gaf Hafrannsóknastofnun út þá yfirlýsingu að ekki væri ráðlegt að gera ráð fyrir því að Íslandsmið gætu skilað í árlegri veiði meira en um 10.000 tonnum af rækju. En á sl. árum hafa verið veidd á þessu sama svæði samkvæmt tillögum þessarar sömu stofnunar 60.000--70.000 tonn, þ.e. sex til sjö sinnum meira en hún taldi að hægt væri með góðu móti að veiða á þessu hafsvæði árið 1986. Þessi veiði er stunduð samkvæmt ráðleggingum stofnunarinnar og stofnunin telur að rækjustofninn á Íslandsmiðum sé í mjög góðu ástandi. Þannig sjá menn hversu víðs fjarri veruleikanum spár geta verið sem ekki eru reistar á nægilega traustum grundvelli.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara frekar út í efnisatriði frv., ég gerði það mjög rækilega á síðasta þingi og frv. er flutt hér lítið breytt. Ég ítreka þá spurningu sem ég beindi til hæstv. sjútvrh. en ég tel mjög vafasamt að hægt verði að afgreiða þetta stóra mál á einum eða tveimur fundum í sjútvn.