Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:15:11 (238)

1996-10-10 14:15:11# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:15]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. þarf þá að svara því hverjir eiga að fá rétt til þess að veiða í úthafinu. Hv. þm. segir alveg skýrt: Það eru ekki þeir sem ráða yfir skipum sem eru nægilega stór og öflug til að stunda þessar veiðar, það eru einhverjir aðrir. Og hv. þm. verður að upplýsa þingið um það hverjir það eru, þessir einhverjir aðrir, þegar ljóst er að að hennar mati eiga það ekki að vera þeir sem ráða yfir þeim skipum sem geta stundað þessar veiðar. Ég trúi því ekki að hv. þm. sé að vísa til útlendinga sem ráða yfir slíkum skipum. Og þegar verið er að tala um að ekki megi blanda saman í löggjöf veiðireglum innan og utan landhelginnar, þá er það höfuðatriði að minni hyggju að það gildi sem sambærilegastar leikreglur fyrir sjávarútveginn í heild. Þar að auki er það og verður staðreynd að sömu skipin verða að veiðum bæði innan og utan landhelginnar. Það er frumforsenda þess að ná fram hagræðingu í rekstrinum. Þar að auki erum við líka að tala um stofna sem eru bæði innan og utan landhelginnar. Hv. þm. getur ekki neitað þeirri náttúrlegu staðreynd að við erum að fjalla um stjórnun á veiðistofnum sem eru bæði innan og utan landhelginnar og að þessir fiskar kunna engin skil á þeim landamærum sem 200 mílna lögsagan segir til um. Það verður þess vegna ekkert hjá því vikist að setja löggjöf sem tekur til hvors tveggja í senn.