Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 14:18:32 (241)

1996-10-10 14:18:32# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:18]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ráðherrann svaraði spurningu sem ég varpaði fram varðandi þær greinar sem lúta að greiðslu veiðileyfagjalds af hálfu úthafsútgerðanna. Ég verð að segja eins og er að svar ráðherrans hlýtur að byggja á einhverjum misskilningi. Ég skil ekki alveg hvernig þetta getur rímað saman, hvernig það geta verið rök fyrir gjaldinu á öll skipin að hluti þeirra hefur notfært sér þann möguleika laganna um stjórnun fiskveiða sem felst í framsali veiðiheimilda.

Nú er framsalið auðvitað umdeilt en ég vil gjarnan að ráðherrann útskýri það betur af hverju öll skip sem sækja á úthafið eiga að borga fyrir að sum þeirra nýta sér framsalsmöguleikann og þá í leiðinni hvaða fordæmi ráðherrann telur að þetta gefi gagnvart öllum öðrum sem nýta sér framsalsmöguleikann, því skipin eru býsna mörg eins og hér hefur verið rakið sem nýta sér þennan möguleika laganna innan lögsögunnar einnig. Þá er spurningin: Eigum við von á því að hér komi fram frv. um að öll skip sem nýta sér framsalsmöguleika skuli fyrir það gjalda með 15% af sínum veiðiheimildum til þeirra sem keyptu af þeim eða leigðu? Hvaða fen er verið að leiða fiskveiðistjórnunina út í með nákvæmlega þessu ákvæði? Ég held að hv. nefnd hljóti að verða að skoða þetta eilítið betur en gert hefur verið til þessa, enda er þetta eitt af þeim atriðum sem voru afskaplega lítið rædd í úthafsveiðinefndinni og hún skilaði ókláru eins og ýmsu fleiru.