Vinnsla síldar til manneldis

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 15:02:32 (252)

1996-10-10 15:02:32# 121. lþ. 6.97 fundur 43#B vinnsla síldar til manneldis# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:02]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég get sennilega tekið undir með hv. þm. að það er fyllsta ástæða til þess að menn kappkosti að setja sem allra mest af síld til manneldisvinnslu. Í raun er það átakanlegt hversu mikið af síld hefur farið í mjölvinnslu á undanförnum árum. En ástæðan er eins og kunnugt er fyrst og fremst sú að það hefur verið mjög óverulegur verðmunur á milli síldar sem farið hefur til manneldisvinnslu og hins vegar til bræðslu.

Ráðuneytið hefur á undanförnum árum lagt á það ríka áherslu að freista þess að hvetja menn til að setja sem mest af síld til manneldisvinnslu. Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir fundum með hagsmunaaðilum, seljendum og verkendum, og það hefur verið reynt að koma á samstarfi til þess að miðla upplýsingum í þeim tilgangi að auka hlutdeild manneldisvinnslunnar og sem betur fer hefur miðað í þá áttina. Hlutfallið sem farið hefur til manneldisvinnslu hefur aukist smátt og smátt þó það sé hvergi nærri eins og við vildum hafa það.

Alþingi samþykkti í nóvember 1994 löggjöf sem heimilar sjútvrh. að ákveða að síld skuli ráðstafað til manneldis með ákveðnum skilyrðum. Þar þarf að hafa átt sér stað samráð milli samtaka fiskvinnslustöðva og landssambands útvegsmanna og samtaka sjómanna og það þurfa að vera fyrir hendi fullnægjandi upplýsingar um gerð samninga um sölu á frystum eða söltuðum síldarafurðum áður en slík ákvörðun er tekin. Í byrjun þessa mánaðar, eða 3. október, hélt ráðuneytið fund með þeim hagsmunaaðilum sem hér um ræðir til þess að fara yfir stöðuna og meta hvort ástæða væri til að grípa til sérstakra aðgerða. Þar kom fram að hráefnisþörf til manneldisvinnslu miðað við síld upp úr sjó er sú að þörf er á 30 þús. lestum til söltunar og rúmum 80 þús. lestum til frystingar þannig að miðað við söluhorfur er þörf á nánast allri síldinni til manneldisvinnslu.

Aðilar hafa jafnan haft nokkuð skiptar skoðanir um það hvort beita ætti þeim lagaheimildum sem eru fyrir hendi. Sjómenn og útvegsmenn hafa alfarið viljað láta markaðinn ráða, en verkendur og vinnsluaðilar hafa fremur stutt það að við tilteknar aðstæður yrði lagaheimildunum beitt, en þó hafa þeir allir verið sammála um að æskilegast og eðlilegast væri að láta markaðinn ráða þessari þróun. Á þessum fundi sem haldinn var 3. október var það niðurstaðan að hvorki útvegsmenn, sjómenn né fulltrúar vinnslunnar vildu á því stigi grípa til aðgerða þannig að lagaheimildunum yrði beitt. Ég hygg, án þess að ég hafi um það nákvæmar upplýsingar, að fram til þessa hafi nánast öll síldin sem komið hefur á land til þessa farið til manneldisvinnslu. En auðvitað fer alltaf eitthvað til mjölvinnslu vegna þess að síldin stenst ekki þær gæðakröfur sem gera þarf til manneldisvinnslunnar.

Reglur af því tagi að ákveða með stjórnvaldsákvörðunum til hvers konar vinnslu síld eða einstakar fiskitegundir fara eru auðvitað mjög vandmeðfarnar. Evrópusambandið hefur slíkar reglur og beitir þeim. Eigi að síður fer mjög mikill hluti af þeirra síld í mjölvinnslu. Sjómenn og útvegsmenn geta hagrætt því og séð svo um að síldin standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til manneldisvinnslu ef þeir vilja setja hana í bræðslu. Það er því vandasamt að beita þessum reglum, en ráðuneytið mun áfram hafa mjög náið samstarf við hagsmunaaðila og meta aðstæður, hvort nauðsynlegt er að grípa til þeirra heimilda sem við höfum í þessu efni. Ég hygg að við getum öll verið sammála um að það er mjög mikilvægt þjóðhagslegt markmið að fá meiri síld til manneldisvinnslu og nýjar markaðsaðstæður og hrun á síld í Norðursjónum gerir það að verkum að við eigum að geta stigið mjög stórt skref fram á við í þessum efnum á þeirri vertíð sem nú er að hefjast.