Vinnsla síldar til manneldis

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 15:12:55 (255)

1996-10-10 15:12:55# 121. lþ. 6.97 fundur 43#B vinnsla síldar til manneldis# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:12]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að veiðum og vinnslu eða nýtingu fiskstofna ber að haga þannig að þjóðfélagið í heild hafi sem mestan ávinning af starfseminni. Vandamálið sem uppi er í þessu efni er svipað og í botnfiskveiðunum, að reglurnar sem við höfum sett okkur eru um of útgerðaraðilanum í vil og um of vinnsluaðilanum í óhag. Það gerir það að verkum að um of ráðast ákvarðanirnar út frá hagsmunum útgerðaraðilans eins. Hann hefur það á sinni hendi að taka ákvörðunina og í of takmörkuðum mæli er ákvörðun bundin hagsmunum annarra aðila og þá einkum aðila sem starfa í landi. Það getur verið ávinningur fyrir útgerðaraðila að setja fisk í ódýrari vinnsluaðferð. Það getur gefið honum meira í sína hönd þó að þjóðfélagið í heild fái minna og færri hafi atvinnu af veiðum og vinnslu en ella yrði.

Þetta held ég að sé eitt höfuðvandamálið og á því þurfum við að taka með því að breyta löggjöfinni um þetta. Ég fæ ekki séð aðrar leiðir en þá til að tryggja að hagsmunir landvinnslunnar komist að í nægilega ríkum mæli í þessu efni, en að taka upp landkvóta eða vinnslukvóta. Enda mæla öll rök með því að þeir sem leggja í fjárfestingar í landi hafi einhverja tryggingu til þess að hafa tekjumöguleika til að standa undir þeim fjárfestingum líkt og útgerðarmenn hafa kvóta skipa sinna sem tryggingu fyrir því að geta aflað tekna til að standa undir fjárfestingum í skipastól sínum.