Vinnsla síldar til manneldis

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 15:17:26 (257)

1996-10-10 15:17:26# 121. lþ. 6.97 fundur 43#B vinnsla síldar til manneldis# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:17]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Það er full ástæða til þess að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Þegar menn minnast þess hve alvarlega horfði í þjóðfélaginu er hrun síldarstofnsins varð 1968, þá held ég að menn hafi nagað sig í handarbökin og hugsað að nú væri rétt að taka á málum ef Íslendingar yrðu aftur þeirrar gæfu aðnjótandi að þeir mundu veiða síld í einhverjum mæli. Það hefur gerst en við minnumst ekki fortíðarinnar. Við minnumst ekki þess alvarlega ástands sem blasti við í þjóðfélaginu og erum kannski komin á of mikla ferð í að veiða síldina án þess að við hugsum til fortíðar og án þess að við hugsum til þess að reyna að ná skynsamlegri niðurstöðu milli vinnslu og fiskveiða svo fleiri tonn fari nú í nýtingu til manneldis.

Ég tel að full ástæða sé fyrir ráðuneytið að huga að því hvort ekki sé möguleiki á að það beiti sér fyrir sameiginlegri umræðu þessara aðila en hafi þó stjórnvölinn í sínum höndum og leiði þá á þá braut að skynsamlegri nýting verði á þessari auðlind okkar.