Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:26:43 (267)

1996-10-14 15:26:43# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:26]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Staðreyndir málsins eru þær að í lok ágúst var gert samkomulag um varanlega lausn á þessu ári til Sjúkrahúss Reykjavíkur, 230 millj. kr. í aukafjárveitingu. Svo er verið að tala hér um það að hæstv. ráðherra hafi firrt sig ábyrgð. Hvílík della. Það er alls ekki þannig.

Ég tel hins vegar að það muni alltaf verða erfiðleikar á stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu nema gerð verði alger uppstokkun á þeim. Þá er ég að tala um að sameina Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríksspítalana. Það var gerð könnun á þessu máli fyrir nokkrum árum sem birtist í skýrslu Ernst og Young og við fórum verstu leiðina. Við sameinuðum Borgarspítalann og Landakot sem þetta ráðgjafarfyrirtæki mælti alls ekki með. (Gripið fram í.) Það gerðum við. Hins vegar var ekki farin sú leið sem ráðgjafarfyrirtækið mælti með, þ.e. að sameina stóru sjúkrahúsin. Þeir sem gagnrýndu þessa skýrslu sögðu að viðkomandi aðilar hefðu ekki fengið nógu margar tölur til að vinna úr. Það er mitt mat að þetta ráðgjafarfyrirtæki hafi bara þurft eina tölu. Og hvaða tala var það? Jú, það var talan 265 þús. íbúar. Það er talan sem þetta ráðgjafarfyrirtæki þurfti á að halda. Það er ekki rétt að hafa tvö hátæknisjúkrahús í svo fámenu landi.

Það er líka annað sem vekur mikla umhugsun. Það er að Sjúkrahús Reykjavíkur er kallað borgarstofnun. En hver er staðreyndin? Ríkið á sennilega um 85% af sjúkrahúsinu og borgar allan rekstrarkostnað, 100%. Það borgar ríkið. Eðli stofnunarinnar er að þetta er ríkisstofnun, samt á borgin þrjá fulltrúa, stjórnarformann og tvo fulltrúa til viðbótar í stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur en heilbrrn. á einn fulltrúa. Þetta finnst mér afar umhugsunarvert.