Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:28:55 (268)

1996-10-14 15:28:55# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:28]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar fjárveitingar voru ákveðnar til Sjúkrahúss Reykjavíkur fyrir yfirstandandi ár voru þær gerðar með hliðsjón af því að kanna ætti till hlítar samvinnu og hagræðingu í sjúkrahúsrekstrinum á höfuðborgarsvæðinu. Það lá ætíð fyrir. Það var gerð skýrsla um þetta mál í mars. Þar komu fram fjölmargar tillögur um það sem til hagræðingar gæti horft. Stjórn spítalans kynnti síðan í sumar tillögur um niðurskurð og hagræðingu í rekstri spítalans en það var athyglisvert hvernig stjórnin lagði þær fyrir. Hún sagði: Þessar tillögur eru að sjálfsögðu fyrir neðan allar hellur og munu bitna á sjúku, geðsjúku fólki og þeim sem minna mega sín. Þannig að það virtist nú ekki vera mikil alvara að baki því að knýja þessar tillögur fram enda var horfið frá þeim. Síðan var gert samkomulag milli aðila, milli ríkis og borgar, milli heilbrrn., fjmrn. og Reykjavíkurborgar, um að setja þessi mál í ákveðinn farveg og vinna að þeim næstu mánuðina ásamt aukafjárveitingu til að sjá fyrir rekstrinum til áramóta.

Það er alveg ljóst að það er lykilatriði þessa máls, að það verður að liggja fyrir áður en fjárveitingar eru ákveðnar, af því að þessi mál eru til umræðu í þinginu, hverja framvindu þessi samningur hefur og hvaða niðurstaða verður af þeirri vinnu. Það er alveg rétt sem hv. 8. þm. Reykv. sagði. Þetta er ekki nýtt mál, þetta er gamalt mál. Síðan ég kom inn á þing fyrir 10 árum hefur þetta mál meira og minna verið til umræðu hvaða ríkisstjórn sem hefur setið hér að störfum þannig að það er fullkomlega út í hött að vera að ásaka núv. heilbrrh. fyrir að hafa skotið sér undan ábyrgð í þessu máli. Þetta er erfitt mál sem þarf að komast að niðurstöðu í.