Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:31:35 (269)

1996-10-14 15:31:35# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), USt
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:31]

Unnur Stefánsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar að koma inn í þessa umræðu um stöðu Sjúkrahúss Reykjavíkur. Eins og allir vita rekum við annan stóran spítala á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Ríkisspítala, eins og hér hefur komið fram. Þó hefur hann ekki verið mikið í umræðunni vegna fjárhagsstöðu hans. Ég vil benda á mjög góðan árangur sem stjórnendur spítalans hafa náð með miklu aðhaldi í rekstri og útsjónarsemi hvers konar, m.a. með lækkun á útgjöldum milli áranna 1995 og 1996 um 100 millj. kr. Starfsfólki hefur fækkað þar um 100 á þessu og síðasta ári og á árunum 1990--1995 hefur orðið mikil breyting til hagræðingar á Ríkisspítölum. Þar vil ég nefna að legudögum hefur fækkað um 5%. Meðallegutími hefur styst um 16,9%, stöðugildum hefur fækkað um 4,9% eða 100 starfsmenn. Meðalkostnaður á hvern sjúkling hefur lækkað um 5%. Meðalsjúklingafjöldi á hvert stöðugildi hefur aukist um 20,1%. En á sama tíma hefur komum á spítalann fjölgað og hlutfall bráðainnlagna aukist. Fjöldi sjúklinga á þessu tímabili hefur aukist um 14,2%, bráðainnlögnum sem hlutfalli af öllum innlögnum hefur fjölgað um 54,1% frá árunum 1990 í 70,3% árið 1995. Með öðrum orðum hefur starfsemi á Ríkisspítölum aukist, fleiri sjúklingum er sinnt en fyrir minni tilkostnað á hvern sjúkling en áður var.

Ég vil benda á ýmislegt sem hefur verið gert í sambandi við nýjungar eins og ný glasafrjóvgunardeild hefur verið opnuð. Hjartaskurðaðgerðir á börnum hafa verið fluttar heim núna í haust og ný gigtarrannsóknarstofa hefur verið opnuð sem heilbrrh. gerði sl. föstudag. Þrátt fyrir samdrátt í fjárveitingum til Ríkisspítala á undanförnum árum hefur með hagræðingu náðst ótrúlegur árangur á þessum spítala.