Þjónustugjöld í heilsugæslu

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:41:21 (273)

1996-10-14 15:41:21# 121. lþ. 7.3 fundur 6. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta) frv., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:41]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslu. Þetta frv. kallar á tvær lagabreytingar, annars vegar á lögum um almannatryggingar og hins vegar á breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu.

2. mgr. 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hljóðar nú svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra setur gjaldskrá fyrir veitta þjónustu heilsugæslustöðva og skal hún vera í samræmi við hliðstæðar gjaldskrár samkvæmt lögum um almannatryggingar.``

Þessi grein eða ígildi hennar hefur verið í lögunum um heilbrigðisþjónustu frá upphafi en nú er lagt til að hún verði felld niður og að heilsugæsla verði ókeypis framvegis. Í almannatryggingalögunum er ákvæði um gjaldtöku á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar, enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum.``

Í frv. er lagt til að í stað fyrri málsliður 66. gr. laganna um almannatryggingar komi tveir málsliðir, svohljóðandi:

,,Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð. Í reglugerðinni er þó ekki heimilt að leggja gjöld á þá einstaklinga sem leita þjónustu heilsugæslunnar.``

Lagt er til að 2. mgr. 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum, orðist svo, með leyfi forseta:

,,Ekki eru tekin gjöld fyrir þjónustu heilsugæslunnar við einstaklinga. Um þjónustu sem aðrir greiða fer eftir sérstakri gjaldskrá sem ráðherra setur.``

Frá og með fjárlögum fyrir árið 1992 hafa álögur á sjúklinga verið auknar jafnt og þétt og af þeim sökum hefur kjararýrnun orðið mest hjá því fólki sem á við sjúkdóma að stríða. Þessar álögur hafa birst í ýmsum myndum. Dregið hefur verið úr stuðningi við einstaklinga í gegnum almannatryggingar, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í tannlæknakostnaði fyrir börn og ellilífeyrisþega og gildir það sama almennt um kostnaðarhlutdeild sjúklinga á heilbrigðisstofnunum. Staða þeirra sem þurfti á heilbrigðisþjónustu að halda hefur þannig stórversnað. Þau gjöld sem hér um ræðir, þ.e. komugjöld á heilsugæslustöðvar, eru aðeins hluti af stærri mynd og þau á eftir að skoða í ljósi óheillaþróunar síðustu ára.

[15:45]

Það er hægt að líta á þetta mál út frá ýmsum sjónarhornum. Í fyrsta lagi er hér um að ræða kjaramál. Það er kjaramál fyrir alla, en sérstaklega kemur öll gjaldtaka í heilbrigðisþjónustunni sér illa fyrir tekjulágt fólk. Og hvers vegna? Vegna þess að tekjulágt fólk hefur samkvæmt orðanna hljóðan minni tekjur til ráðstöfunar. En einnig er á hitt að líta að samkvæmt öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið, ekki einungis hér á landi heldur víða um lönd, er tíðni sjúkdóma meiri hjá fólki sem stundar erfiðisvinnu og er iðulega tekjulágt fólk, en gerist með öðrum þjóðfélagshópum. Þetta kemur m.a. fram í bæklingi sem gefinn var út á vegum landlæknisembættisins í janúar 1995 undir heitinu Blikur á lofti velferðar. Þar kemur fram að sjúkdómstíðnin er hæst hér á landi á meðal þeirra sem starfa við iðnaðarstörf og sinna ófaglærðum störfum. Þetta er svona fyrsta atriðið sem mig langar til að vekja athygli á. Þetta eru kjaramál sem bitna verst á tekjulágu fólki.

Ástæðan fyrir því að við teljum mikilvægt að byrja á þessum þætti heilbrigðisþjónustunnar þegar við reynum að snúa til baka þeirri óheillaþróun sem átt hefur sér stað á síðustu árum er sú að heilsugæslan er grunnþjónusta sem skiptir miklu máli að verja. Samkvæmt könnunum sem vitnað er til í þessum sama bæklingi frá landlæknisembættinu, Blikum á lofti velferðar, er því haldið fram að takist að stýra fólki til heimilislækna og inn í hina almennu heilsugæslu, geti það orðið til að lækka tilkostnað utan sjúkrahúsa um verulegar upphæðir. Í þessum bæklingi er nefnd prósenta, 18%, samkvæmt könnun sem gerð var á vegum OECD. Það gafst vel á árunum fram að 1992 þegar heilsugæsla var hér ókeypis. Það ýtti undir að fólk notaði sér heilsugæsluna og eins og bent var á getur þetta leitt til þess að sérfræðikostnaður minnki.

Enn er á það að líta að talsverður kostnaður er af skrif\-ræðinu. Mönnum reiknast til að þetta afli um 200 millj. í ríkissjóð. Ég hef ekki tölur um það. Ég held að enginn hafi reyndar tölur um það hver tilkostnaðurinn af þessu kerfi er. Við minnumst þess að þegar stimpilvélunum var komið upp, þá fóru allir starfsmenn heilsugæslunnar á mikil námskeið til að átta sig á reglum skrifræðisins. En það er vel þekkt staðreynd innan heilsuhagfræðinnar og hefur margoft komið fram í skýrslum sem hafa verið unnar á vegum alþjóðastofnana, t.d. OECD, að ef tilkostnaðurinn við heilbrigðisþjónustuna er of mikill, þá fælir það fólk frá því að leita til hennar. Þetta getur leitt til ójafnaðar í þjóðfélaginu sem mjög eindregið er varað við, t.d. af OECD. Þess vegna reyna menn jafnan að halda þessum tilkostnaði niðri, þ.e. aðgangseyri að almennu heilsugæslunni. Og þá er spurningin: Hvenær borgar í rauninni innheimtan sig eða hættir að borga sig? Það er því hægt að skoða þessi mál út frá ýmsum sjónarhornum.

Það sem núna kemur upp í hugann á þessum drottins degi er að okkur er að berast upplýsingar um að fátækt á Íslandi fari vaxandi. Í laugardagsblaði Morgunblaðsins er greint frá rannsóknum sem tveir kennarar við Háskóla Íslands hafa sett fram, Stefán Ólafsson og Karl Sigurðsson. Þar kemur fram að aukning fátæktar, eins og komist er að orði, hefur orðið veruleg á síðustu árum. Það kemur fram í grein þeirra að frá 1989 hefur aukningin numið um 50% og það er athyglisvert þegar þessar niðurstöður eru bornar saman við það sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndum því þar hefur dregið úr fátækt. Í þeim löndum sem hafa orðið verst úti í efnahagskreppu síðustu ára og þá sérstaklega Finnlandi, fór að síga á ógæfuhliðina eftir 1990, eftir að atvinnuleysi fór þar úr 5% upp í 18--19%, upp undir 20%. Á móti komu öflugar millifærslur til atvinnulausra til að sporna við þessu. Hér hefur þetta hins vegar allt verið á einn veg. Hér er fátækt að aukast og á sama tíma er hert að hinum fátæku. Það er skrúfað að hinum fátæku. Og ef það er tilfellið, að það er fyrst og fremst fátækt fólk sem þarf á heilsugæslunni að halda, þá er kominn tími til að byrja að vinda ofan af þessari þróun. Þess vegna hefur allur þingflokkur Alþb. og óháðra sameinast um þessar tillögur, um að leggja fram frv. þar sem þjónustugjöld í heilsugæslunni eru afnumin og reyndar bönnuð með lögum. Þetta er eitt skref af mörgum sem við erum að stíga núna í upphafi þings til að reyna að rétta hlut hinna fátæku á Íslandi og treysta stöðu fjölskyldunnar.