Þjónustugjöld í heilsugæslu

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:15:39 (280)

1996-10-14 16:15:39# 121. lþ. 7.3 fundur 6. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ljóst er að bæði á þessu þingi og síðasta þingi hefur stjórnarandstaðan fyrst og fremst verið í vörn fyrir heimilin í landinu. Framsfl. og Sjálfstfl hafa helst fundið sér heimilin í landinu, sjúklinga, aldraða og öryrkja sem skotmark og telja að þar sé helst að leita að peningum til þess að draga úr halla ríkissjóðs. Þeir skoða aldrei leiðir þar sem peningana er raunverulega að finna. Ég get nefnt sem dæmi útfærslu þeirra á fjármagnstekjuskattinum þar sem þeir minnka skatta þeirra sem raunverulega eiga peninga.

Ég fagnaði því að skoða ætti tillögu sem miðaði að því að létta byrðir heimilanna og sérstakalega þeirra heimila þar sem slík útgjöld koma harkalega niður á. Ég hvatti til þess að þjónustugjöldin yrðu skoðuð í heild sinni, hvort við værum þar á réttri leið. Ég held að Sjálfstfl. sé að minnsta kosti ekki á réttri leið vegna þess að það sem hann vill helst sjá eru skattar á sjúklinga, helst í formi þjónustugjalda, skattar á skuldug heimili í landinu en að hlífa raunverulegum fjármagnseigendum. Það er stefna sem ég vildi ekki framfylgja.