Þjónustugjöld í heilsugæslu

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:18:05 (282)

1996-10-14 16:18:05# 121. lþ. 7.3 fundur 6. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því með þennan hv. þm. að strax og við í stjórnarandstöðunni og í þingflokki jafnaðarmanna ræðum um þá sérhagsmuni sem íhaldið verndar og stendur raunverulega fyrir, vegna þess að íhaldið er raunverulega ekkert annað en pilsfaldakapítalismi sem verndar t.d. hina raunverulegu fjármagnseigendur, þá verður hann ansi órólegur. Mér finnst stundum á málflutningi hans að hann eigi ekki alveg heima í Sjálfstfl. eins og hann er sem fyrst og fremst verndar sérhagsmuni. Að því leyti fannst mér ræða hans athyglisverð.

Ef þingmaðurinn hefur áhyggjur af því að ekki sé gott samkomulag í þingflokki jafnaðarmanna þá eru það óþarfaáhyggjur. Hann ætti frekar að snúa sér að því að líta til eigin flokks og vita hvort hann sé á réttri leið og hvort hann standi virkilega fyrir þau markmið sem hann gefur sig út fyrir að hafa. Alveg er sama hvort horft er til landbúnaðarmála, neytendamála, framþróunar í atvinnustefnu eða sjávarútvegsmálum. Alls staðar verndar Sjálfstfl. sérhagsmuni og er raunverulega ekkert annað en framsóknaríhald. Þess vegna eiga þessir flokkar mjög vel saman í ríkisstjórn en því miður er ekki hagur landsmanna að þeir sitji lengi í ráðherrastólum.