Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:29:04 (285)

1996-10-14 16:29:04# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:29]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir till. til þál. þess efnis að Alþingi álykti að við endurskoðun laga um fæðingarorlof verði tryggður sjálfstæður réttur feðra til a.m.k. tveggja vikna orlofs á launum við fæðingu barns. Lenging fæðingarorlofs og aukinn réttur fjölskyldunnar er viðamikið mál og kostar mikið fé. Það er hins vegar forsenda fjölskyldustefnu, sem tekur mið af almennri atvinnuþátttöku og breyttum þjóðfélagsháttum, að körlum sé gert kleift að sinna skyldum sínum að þessu leyti.

Þetta er aðeins einn þáttur af miklu stærra máli og í greinargerð og fylgiskjali sem fylgir þessari till. til þál. sem við stöndum að, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér stendur, fylgja tillögur karlanefndar Jafnréttisráðs þar sem sérstaklega er vakin athygli á því að það þurfi að taka á málinu á miklu víðari grunni en hér er lagt til. Ég minni á að þegar tillagan kom fyrst fram hjá okkur fyrr á þessu ári voru aðrar tillögur einnig til umfjöllunar, þar á meðal mjög vandaður málatilbúnaður frá þingkonum Kvennalistans þar sem margt kom fram sem ég get stutt mjög vel. Ég vek því athygli á því að hér er aðeins um hluta málsins að ræða en nokkuð sem við teljum sérstaka ástæðu til að vekja athygli á.

Ef litið er til grannríkja okkar þá stöndum við þeim að baki. Til dæmis í Danmörku hafa feður rétt á 14 daga sjálfstæðu fæðingarorlofi á fyrstu 14 vikum eftir fæðingu barns en árið 1991 nýttu 55% feðra sér þennan rétt. Finnskir feður eiga rétt á sex daga sjálfstæðu fæðingarorlofi auk þess sem þeir geta skipt fæðingarorlofi með móður. Norskir feður eiga rétt á fjögurra vikna launuðu orlofi sem er þannig skilyrt að sé það ekki nýtt styttist heildartími orlofsins að sama skapi. Að auki eiga norskir feður rétt á leyfi frá vinnu í tvær vikur í tengslum við fæðingu barns. Rétturinn er háður því að móðirin vinni utan heimilis. Í Svíþjóð hafa feður sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs, tvær vikur í tengslum við fæðingu og fjórar vikur sem falla niður ef faðirinn nýtir sér ekki réttinn. Með öðrum orðum, um er að ræða sjálfstæðan rétt óháðan rétti móðurinnar og það mun vera svo í Svíþjóð að um helmingur feðra nýtir sér þennan rétt. En það er athyglisvert að hluti þessa réttar í Svíþjóð er ekki bundinn við að taka hann við fæðingu barns og það kemur á daginn að drjúgur hluti feðra nýtir sér hann ekki fyrr en barnið er orðið nokkurra mánaða gamalt en það munu vera hugmyndir sem eru á kreiki í stjórnkerfinu að binda réttinn ekki við fyrsta æviskeiðið eða fyrstu vikurnar sem ég teldi ekki vera rétt. Það er mikilvægt að faðirinn sé með barninu og inni á heimilinu fljótlega eftir fæðingu og hætt við því ef það er ekki skilyrt og bundið þessum tíma að það verði þá nýtt í öðrum tilgangi, þegar passar að mála húsið svo dæmi sé tekið.

Í tillögum karlanefnar Jafnréttisráðs er vakin athygli á fimm þáttum sem nefndin telur nauðsynlegt að stefna að.

1. Stefnt verði að lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og verði fjórir mánuðir bundnir föður, fjórir móður en fjórum geti foreldrar skipt eftir hentugleikum.

2. Lágmarkskrafa er að feður fái tveggja vikna orlof á launum við fæðingu barns sem rímar við þá tillögu sem hér er uppi.

3. Foreldrar hafi hvort um sig sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og greiðslna.

4. Áhersla verði á sveigjanleika í töku orlofs, til að mynda að því megi dreifa á tvö ár.

5. Tekjuskerðing foreldra í fæðingarorlofi megi ekki standa í vegi fyrir töku þess.

Þetta eru atriði sem ég vildi vekja athygli á en taka upp þráðinn þar sem ég var með samanburð á milli Norðurlandanna og átti eftir að botna það heima hjá okkur því að það kemur á daginn að afar fáir karlmenn nýta sér möguleika á fæðingarorlofi. Þeir voru 17 árið 1993 en það ár fæddust 4.623 börn í landinu. Árið 1994 tóku 14 feður fæðingarorlof. Þá voru fæðingar 4.442 og 1995 voru þeir aðeins 10 en þá fæddust 4.280 börn í landinu. Eins og eflaust margir þekkja margir er það svo með karla sem eru opinberir starfsmenn að þeir hafa ekki rétt til fæðingarorlofs þannig að þeir eiga ekki kost á því að nýta sér þessi réttindi. Því hefur margoft verið hreyft að lögum verði breytt til þess að auðvelda þeim það.

Hvernig sem á málið er litið mælir allt með því að við förum út á þessa braut. Það kemur á daginn þegar skoðuð eru blöð frá verkalýðssamtökum erlendis að þau eru hvarvetna að taka kröfuna um fæðingarorlof feðra upp af auknum þunga. Í Bretlandi hafa verkalýðsfélög t.d. samið um sjálfstætt fæðingarorlof feðra. Það er ekki langt. Hér er ég með skírskotun í eina 10 kjarasamninga. Það eru frá þremur upp í sex daga en sumir hafa gert betur upp á síðkastið. Til dæmis voru Grænlendingar að auka þennan tíma hjá sér. Þar var það vika en er núna orðið tvær vikur. Því mun hafa verið breytt nýlega. Meginröksemdin er náttúrlega sú að það er mikilvægt að tryggja barni rétt til samvista við bæði föður og móður á fyrsta æviskeiðinu. Það er réttur barnsins að fá að mynda náin tengsl við báða foreldra sína á fyrstu dögum og vikum ævi sinnar.

Fram til þessa hafa feður verið afskiptir hvað varðar samskipti við börn sín og liggja til þess margar skýringar. Með tveggja vikna orlofi eftir fæðingu er stuðlað að því að fjölskyldan geti verið saman. Í rauninni snertir þetta mál réttindi allrar fjölskyldunnar, barnsins, föðurins og móðurinnar en einnig leikur ekki á því vafi að fæðingarorlof feðra mun stuðla að jafnrétti á milli kynjanna á vinnumarkaði. Vitað er að litið er á konur á barnseignaraldri sem eins konar áhættuhóp. Atvinnurekendur hafa þann möguleika án efa í huga við ráðningu nýrra starfsmanna hvort líkur séu á því að viðkomandi starfsmaður verði fjarverandi vegna ungra barna og ætla má að hið sama sé uppi á teningnum þegar stöðuhækkanir eru til skoðunar. Ef feður öxluðu þá ábyrgð að sinna börnum sínum í fæðingarorlofi á við mæður væru þeir komnir í sams konar stöðu og þær að því leyti að reikna mætti með því að þeir yrðu frá vinnu vegna ungra barna. Deili feður og mæður rétti til fæðingarorlofs yrði þannig stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna, ekki aðeins inni á heimilinu heldur einnig á vinnumarkaði. En það sem mestu máli skiptir er að með þessu móti er stuðlað að velferð fjölskyldunnar og þar með samfélagsins alls. Ég legg áherslu á að nýju að hér er einvörðungu verið að gera tillögu um að stigið verði fyrsta skref. Það er ekki stórt skref en það er mjög mikilvægt að fá þetta samþykkt hið allra fyrsta.