Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 16:58:22 (288)

1996-10-14 16:58:22# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:58]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég fagna framkominni þáltill. um fæðingarorlof feðra. Eins og komið hefur fram hefur þessi tillaga komið fram áður. Það er verið að skoða lög um fæðingarorlof og sú endurskoðun gengur ósköp hægt. Það eru margir orðnir óþreyjufullir bæði mæður og feður eftir að sjá breytingu á þeirri löggjöf.

Íslenska samfélagið er ekki fjölskylduvænt samfélag eins og það er nú. Börn þurfa allt of mikið að sjá um sig sjálf og börn hafa enn minna af feðrum sínum en mæðrum að segja. Íslenski atvinnumarkaðurinn er harður og óvæginn verðandi foreldrum og foreldrum ungra barna.

Fæðingarorlof kvenna er aðeins sex mánuðir og ég segi aðeins sex mánuðir því að það er of skammur tími. Það er lítill sveigjanleiki við töku fæðingarorlofs og það er eins og börnin séu eingetin því feðrum er ekki ætlað að koma að umönnun ungbarna sinna. Vanfærar konur eru af skiljanlegum ástæðum oft orðnar þreyttar í lok meðgöngunnar. Það er ekki hægt að tala um veikindi. Þær geta tekið fæðingarorlofið mánuði fyrr og átt þá fimm eftir við fæðinguna. Það er kostur sem konur taka í neyð því allir eru meðvitaðir um að ekki veitir af fullum sex mánuðum eftir fæðingu. Sumar konur geyma sín sumarfrí og taka þau í lok meðgöngunnar því þær vita að þær verða þreyttar og illa fyrirkallaðar og engum er til góðs og ekki íslensku þjóðfélagi heldur að konur fari þreyttar og illa upplagðar í fæðinguna. Fæðingin gengur verr og þær eru miklu lengur að ná sér.

[17:00]

Það er hægt að fá framlengingu á fæðingarorlofi kvenna um einn til tvo mánuði til viðbótar en til þess þurfa að liggja mjög gild rök. Staðan í dag er sú að konur þurfa í raun og veru að vera rúmliggjandi til að fá þessa framlengingu eða börn þeirra mjög veik. Þetta er nú staðan í dag. Það sem þyrfti að laga sem snýr að konum og feðrum þegar þeir koma inn í myndina eins og tillagan fjallar um er að stuðla að sveigjanlegum vinnutíma, sérstaklega eftir að móðir byrjar að vinna eftir fæðinguna. Konunum verður að gefa möguleika á að sinna börnunum áfram, vera ekki frá þeim í heila átta tíma, geta farið heim og gefið brjóst, annast börnin, komið aftur eða reynt að haga vinnunni þannig að þær geti skilað fullum vinnutíma en með þeim hætti sem hentar hverri fjölskyldu sem best þannig að fjölskyldutengslin og aðbúnaður sé hinn besti.

Konur á barneignaraldri eru sannarlega áhættuhópur í dag að mati margra atvinnurekenda. Það má örugglega rekja hluta af launamisréttinu sem er á vinnumarkaðnum til þess að konur eru í veikari stöðu þegar þær semja um sín laun og eru meðvitaðri um að einmitt á barneignaraldri er staða þeirra veikari. Bara það að fá karla inn í fæðingarorlofið, að þeir hafi rétt eða eigi að vera með í fæðingarorlofi jafnar stöðu karla og kvenna á vinnumarkaðnum til launa. Fæðingarorlof feðra er því þáttur í að jafna foreldra sem ,,áhættuhópa`` á vinnumarkaði. Fæðingarorlof feðra er bæði feðrum og börnum nauðsynlegt til að byggja upp jákvæðar tilfinningar og auka ábyrgð feðra á uppeldi barna sinna og vitund um að við uppeldi barnanna þurfi áfram að koma föðurímynd eða karl\-ímynd inn í leikskólana, grunnskólana og framhaldsskólana. En kannski einmitt vegna launamismunar sem er á störfum karla og kvenna hafa konur frekar raðast í þau láglaunastörf sem eru á uppeldisstofnunum og börnin hafa mörg hver hvorki föðurímyndina heima né á þeim stofnunum sem þau dveljast á mestan hluta af grunnskólaaldrinum.