Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 17:13:50 (291)

1996-10-14 17:13:50# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:13]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hef hlýtt með athygli á þessa umræðu um fæðingarorlof feðra. Eins og ég hef getið um áður er þetta forsenda fyrir því, ein af forsendunum fyrir því að jafnrétti náist milli kynja í launum. Ég hef getið um það áður að það eru nokkrar forsendur og þetta er ein af þeim.

Það að eingöngu konur taka fæðingarorlof og hverfa úr atvinnunni í sex mánuði er mjög dýrt fyrir fyrirtækin og veldur því að fyrirtækin hljóta að horfa til þess að ráða frekar karla en konur að öðru jöfnu. Þess vegna er ég hlynntur því að körlum sé gert að taka hluta af fæðingarorlofi, kannski ekki alveg til jafns við konur en að það mundi stefna að því á einhverjum tíma. Hins vegar eru ákveðnar líffræðilegar ástæður fyrir því að konan tekur fæðingarorlofið fyrst. Það er t.d. brjóstagjöf og ýmislegt fleira sem veldur því að konan tekur fæðingarorlofið fyrst. Ég sé ekkert að því að karlar taki fæðingarorlof á seinni stigum þegar brjóstagjöf er hætt eða hún er orðin minni og þá finnst mér eðlilegt að karlarnir taki yfir. Þetta er réttur karlmannsins því það er mjög mikils virði fyrir karlmenn að vera með börnum sínum á fyrsta æviskeiði.

[17:15]

Ég mótmæli því að karlmenn muni misnota þetta tækifæri til að fara að mála húsið sitt eins og kom fram hjá hv. 17. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni. Ég held að karlmenn geti alveg eins séð um börn og heimili og konur. Ef þeir geta málað hús í leiðinni geta konur það að sjálfsögðu líka.

Það sem menn þurfa að horfa á í þessu sambandi er sá kostnaður sem felst í fæðingarorlofinu fyrir atvinnulífið. Við höfum nú þegar tekið upp sex mánaða fæðingarorlof fyrir konur. Ég tel að það væri skref í rétta átt ef tekið væri upp í fyrstu að tveir mánuðir af þessum sex yrðu að fara til karlmannsins eða föðurins. En að sjálfsögðu þarf að líta á málið í heild sinni og að því er mér skilst þá er nefnd í gangi sem er að fjalla um þessa skiptingu á fæðingarorlofi milli karla og kvenna og við þurfum að bíða eftir niðurstöðum þeirrar nefndar.

Nú er það þannig að barnagæsla er best geymd hjá foreldrum barnanna. Ég hef miklar efasemdir um að senda sex mánaða gömul börn á barnaheimili. Ég hef miklar efasemdir um það að börn hafi yfirleitt nokkuð erindi á barnaheimili fyrr en við 2--3 ára aldur og það er reynsla mín sem föður.

Við þurfum náttúrlega að stefna að því að breyta þjóðfélaginu á þann veg að foreldrarnir geti skipst á um að passa börnin sín, jafnvel á vöktum fyrstu þrjú árin. En það er miklu meiri breyting en hér er verið að tala um og við þurfum að stefna að því öll saman að finna lausn á því.

Hvað það varðar að sú ályktun sem samþykkt var á landsfundinum sé sýndarmennska Sjálfstfl. þá vil ég upplýsa hv. þm. um að landsfundurinn var mjög jákvæður. Þetta var virkilega góður fundur og þar var mikið rætt um jafnrétti kynjanna á ýmsum forsendum. Þar voru mjög góð erindi haldin og mjög góðar ræður um það mál og ég er alveg sannfærður um að þegar stærsti flokkur þjóðarinnar leggur þvílíka áherslu á jafnrétti kynjanna mun það skila sér út í atvinnulífið og út í þjóðfélagið.

Ég hef reyndar bent á það og beðið menn um að horfa á jafnréttisbaráttuna með öðrum augum, út frá kröfum um arðsemi. Það er nefnilega undarlegt að fyrirtæki, hvort sem það er opinbert eða einkafyrirtæki, geti ráðið karl á hærri launum en konu. Það er reyndar efni sem heyrir ekki endilega undir það sem við ræðum hér en ég held að ein af stóru ástæðunum fyrir misrétti og launamisrétti kynjanna sé sú að ekki er gerð krafa um arðsemi fjár, hvorki í ríkisfyrirtækjum né í öðrum fyrirtækjum.

Herra forseti. Ég tel að þetta frumvarp, sem er hér lagt fram, sé gott innlegg í umræðuna um að skipta fæðingarorlofi milli kynjanna. Það er of þröngt að því leyti að það gerir ráð fyrir því að fæðingarorlof feðra sé tekið strax við fæðingu. Ég held að það sé betra á seinni stigum. Mér finnst það ekki ganga nógu langt í því að skipta þessu upp, ég held að ætti að byrja með einn mánuð eða því um líkt þannig að um væri að ræða raunverulega skiptingu á milli feðra og mæðra.