Fæðingarorlof feðra

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 17:19:10 (292)

1996-10-14 17:19:10# 121. lþ. 7.4 fundur 12. mál: #A fæðingarorlof feðra# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort síðasti ræðumaður talaði fyrir þeirri útfærslu sem Sjálfstfl. vill sjá að því er varðar fæðingarorlof feðra. En ég vona að hv. þm. hafi ekki verið að því vegna þess að hann er ekki að tala um sjálfstæðan rétt feðra eins og tillagan gerir ráð fyrir, hann er að tala um að feður fái bara hluta af því fæðingarorlofi sem konur hafa nú. Þetta er mjög ófullnægjandi, hv. þm., og það er kjarni málsins sem þingmaðurinn benti á að atvinnulífið hefur ráðið frekar karla til starfa en konur ef þær eru á barneignaraldri ef einhver hætta er á því að þær fari í fæðingarorlof. Það er náttúrlega alls óviðunandi. Ég spyr hv. þm. hvort hann gæti þá ekki stutt nýja fjármögnunarleið í þessu sem kemur ekki niður á ráðningu kvenna í atvinnulífinu, þ.e. að atvinnulífið greiddi eitthvert lítið gjald sem gæti hugsanlega verið viðbót við tryggingagjald sem gengi til þess að greiða fæðingarorlofið. Þá væri þetta sameiginlegur sjóður sem greiddi fæðingarorlof og kæmi ekki niður á konum. Hv. þm. benti réttilega á að karlar eru frekar ráðnir en konur ef hætta er á því að þær fari að eignast börn. Þess vegna ætti að vera sú leið varðandi fjármögnun að þetta væri sameiginlegur sjóður sem atvinnulífið í heild stæði að. En ég segi enn og aftur að það er alls ófullnægjandi að það sé ekki sjálfstæður réttur feðra. Ég vona að það séu ekki hugmyndir sjálfstæðismanna að einungis eigi að klípa af því sex mánaða fæðingarorlofi sem nú er til staðar.